136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég saknaði þess í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar að þar er ekki fjallað um vanda Íslendinga í heild sinni. Vandi Íslendinga er fjórþættur. Í fyrsta lagi eru það jöklabréfin sem við erum að glíma við þessa dagana á gjaldeyrismarkaðnum, í öðru lagi eru það Icesave-reikningarnir, sem fjallað verður um á eftir og koma vissulega inn í þetta dæmi og töfðu afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hv. formaður nefndarinnar nefndi heldur ekki, og í þriðja lagi er það aðkoma og samningar við kröfuhafa bankanna, banka úti í heimi sem hafa lánað óhemju mikið fé og segja að ef ekki verði með einhverju móti liðkað fyrir þeim geti Íslendingar gleymt því að taka lán í útlöndum næstu 20 árin. Þetta er til viðbótar falli bankanna.

Þetta er því fjórþættur vandi og mér finnst það mjög slæmt, verulega slæmt, herra forseti, ef menn taka ekki á vandanum sem einni heild og hver nefnd og hvert ráðuneyti er að leysa sitt mál, svona eitt sér. Þetta verður að nefna allt í einni heild vegna þess að við megum ekki gera samning við t.d. Breta um skuldsetningu sem þjóðin rétt ræður við og gera síðan samninga við kröfuhafana um skuldbindingar sem þjóðin rétt ræður við. Síðan bætast jöklabréfin við og gjaldþrot bankanna og þjóðin ræður ekki við þetta allt saman í heild. Það þarf að fara í heildstæða samninga við alla þessa aðila, það er mjög brýnt og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að gera það þannig.