136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér voru nefnd til sögunnar nokkur atriði, í fyrsta lagi hvernig umsóknarferli okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tafðist vegna þess að inn í það var blandað óskyldum málum. Ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni við 1. umr. þessarar þingsályktunartillögu að það hefði verið afar óheppilegt og í raun til minnkunar fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem stofnun að þar væri hægt að taka í gíslingu lánsbeiðnir með þeim hætti sem gert var í þessu tilviki. Það var líka augljóslega til mikils tjóns fyrir okkur vegna þess að á meðan brunnu eldarnir og lánsbeiðni okkar lá þar óafgreidd. Hér er rætt um að líta þurfi á öll þessi mál heildstætt. Ég tel að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sé vikið að því að við ráðumst í lántökur vegna efnahagsvandans og þess að við þurfum að grípa til ýmissa ráðstafana.

Lánið sem við fjöllum sérstaklega um — þetta er þingsályktunartillaga sem er lögð fram í því skyni, eins og segir í nefndarálitinu, að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar. Um það snýst þetta mál. Hægt er að halda því fram hér að við ættum að taka miklu fleira með inn í myndina en það er ekki hluti af þingsályktunartillögunni. Við ræðum hvort þingið ætlar að veita ríkisstjórninni pólitískan stuðning til þess að leiða lánsumsókn sína hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til lykta og fara í þetta verkefni í samráði við sjóðinn.

Við víkjum að því í nefndarálitinu að gríðarlega mikilvægt er að heildaryfirlit með öllum þeim aðgerðum sem grípa þarf til sé hjá forsætisráðuneytinu. Við leiðum það fram í nefndarálitinu að forsætisráðuneytið gegnir þessu hlutverki og við bendum á mikilvægi þess að ráðuneytið geri það áfram vegna þess að það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að samræma þarf allar aðgerðir þannig að þær spili saman sem ein heild.