136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er ætlað að hjálpa þjóðum. Hann byrjaði á því að skaða Íslendinga með því að draga að afgreiða umsóknina lengi vegna þess að hann var misnotaður af stjórn sjóðsins og Evrópusambandinu og hefur þannig skaðað Íslendinga hingað til. Sjóðurinn á auk þess að koma að heildarlausn á vandamálum þjóða en ekki bara einum þætti. Hann á líka að koma að vandamálum, því það sem skaðaði okkur var að við vorum neydd af öllu Evrópusambandinu til að samþykkja Icesave-reikninga Breta og Hollendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verður að taka það inn í myndina. Hann getur ekki gleymt einum risastórum þætti sem hann þvingar sjálfur upp á okkur. Auk þess verður sjóðurinn að taka inn í dæmið að Íslendingar þurfa lánsfé til framtíðar. Þeir geta ekki verið algerlega einangraðir í heiminum og geta hvergi tekið lán þannig að hann verður líka að koma inn á hvernig við ræðum við kröfuhafana og hvernig við ráðum við jöklabréfin, sem hann tekur reyndar á að einhverju leyti. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ber skylda til, ef hann ætlar að hjálpa okkur yfirleitt, að taka alla þessa þætti inn í. Við erum ekki að ræða um eitt einstakt afmarkað dæmi heldur allan vanda þjóðarinnar eins og hann leggur sig.