136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Augljós þáttur í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er að meta það sem sjóðurinn kallar „debt sustainability“ sem fjallar í raun og veru um það hvernig við getum risið undir þeim heildarskuldbindingum sem ríkissjóður tekur á sig vegna ástandsins á Íslandi í dag. Sjóðurinn tekur sannarlega heildarmyndina í efnahagslegu tilliti með í skoðun sinni.

Ég held að mjög óviðeigandi sé nú þegar við erum nýbúin að fleyta íslensku krónunni að nýju — og það gekk ágætlega í gær að vinna að styrkingu hennar á ný — að gera það að aðalumfjöllunarefni við þessa umræðu að sjóðurinn sé sérstaklega að skaða okkur. Það er einmitt aðkoma sjóðsins sem gerði kleift að fleyta krónunni að nýju og byrja að vinna að því að fá styrk í gjaldmiðilinn. Við eigum að horfa til samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með jákvæðum augum en ég ætla ekki að gera lítið úr alvarleika þeirra hnökra sem voru í samstarfinu til að byrja með. Ég tel að þar sé ekki við starfsmenn sjóðsins að sakast eða þá sem vilja okkur vel heldur lá það vandamál kannski meira hjá stjórn sjóðsins en sjóðurinn er auðvitað ekkert annað en alþjóðleg samvinna margra ríkja. Sum þeirra ríkja sem komu að stjórn sjóðsins ákváðu að blanda þar inn óskyldum málum og ég ætla ekki að ítreka athugasemdir mínar vegna þess frekar en ég hef þegar gert.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að málin þarf að skoða heildstætt. Ég held að vinna nefndarinnar hafi sýnt að stjórnvöld eru mjög meðvituð um þetta. Ég tel að í þeirri vinnu sem er fram undan — ársfjórðungslega fer fram vinna í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem felst í því að skoða hvernig okkur vindur fram í þessu verki okkar og stjórnvöld eru mjög meðvituð um að hlutina þarf að skoða heildstætt og það verður gert áfram í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.