136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[13:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Íslensku krónunni hefur ekki verið fleytt. Hún er í flotkví. Ef íslensku krónunni væri fleytt á markaði mundi hún sökkva. Við höfum öll áhyggjur af því að þegar henni verður fleytt gæti farið svo að heimilin og atvinnulífið í landinu sökkvi dýpra en nú er. Ekki síst höfum við áhyggjur af því vegna þess að gjaldmiðillinn er í höndum Seðlabanka sem er rúinn trausti og eldar í þokkabót grátt silfur við ríkisstjórnina og hótar pólitískum átökum. Það er óviðunandi.

Við fjöllum hér um áætlun um enduruppbyggingu samfélags okkar í kjölfar kerfishruns, í kjölfarið á hruni íslenska fjármálakerfisins, siðferðilegu og fjárhagslegu gjaldþroti þess. Sú áætlun er býsna erfiður leiðangur þar sem við Íslendingar þurfum að vinna okkur út úr gríðarlega miklum skuldum og standa vörð um atvinnuna í landinu og verja heimilin. Það verður sannarlega ekki létt verk með þær miklu skuldabyrðar sem eru á bakinu. En það er vinnandi vegur og við höfum oft í gegnum söguna sýnt að við getum komist fljótt upp aftur eftir slíkar lægðir. En forsendan fyrir því er að við tökum öll á saman. Að allir rói í eina átt og alveg skýrt sé hver er skipstjóri á skútunni og hver í vinnu hjá hverjum. (ÁÞS: Er hann í Seðlabankanum?)

Það að yfirstjórn Seðlabankans eldi grátt silfur við ríkisstjórnina grefur því miður undan þeim litla trúverðugleika sem Ísland á eftir bæði hér heima og alþjóðlega. Nú þurfum við sem aldrei fyrr að standa vörð um þann litla trúverðugleika sem eftir er. Í þessu hefur býsna mikið þolgæði verið sýnt við það að reyna að ná mönnum saman. Það má ekki frestast mikið lengur því, eins og hér hefur verið farið yfir, við öxlum nú miklar byrðar og mörg ríki sem lent hafa í þeirri stöðu sem við erum nú í hafa hrunið aftur vegna þess að það hefur verið látið undir höfuð leggjast að setja færustu fagmenn í forustu, þá sem máli skiptir. Þar hefur ekki verið farið í verkefnin og þar hafa allar stofnanir og aðilar sem að málinu koma ekki staðið saman um leiðangurinn. Alþingi Íslendinga verður að hafa skýra forustu um að slíkt gerist ekki hér. Við megum ekki láta undir höfuð leggjast að taka á vandamálunum, þeirri vanhæfni sem er að finna í kerfinu á mistökunum sem gerð hafa verið vegna þess að ef við gerum það hættum við raunverulega á það með opin augun að dæmið endurtaki sig.

Fundur viðskiptanefndar Alþingis í gær eða fréttir af honum í fjölmiðlum urðu ekki til þess að auka mér bjartsýni um þetta og síst sá fréttaflutningur sem var af fundinum og hefur kallað á yfirlýsingar m.a. af hálfu formanns Samfylkingarinnar. Allir hljóta að vera sammála um að þetta ástand er ekki viðunandi og menn verða að taka höndum saman og sýna að hér sé skýr forusta í þessum málum og samstaða um stefnuna sem hefur verið lögð með áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Eins og fram hefur komið í ýmsum ræðum er rétt að í þessari erfiðu stöðu mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa býsna mikið að segja um til hvaða aðgerða verður gripið og hvernig efnahagsstjórninni verður hagað. Sumir vildu segja sem betur fer og það er að minnsta kosti rétt að ekki höfum við gætt vel að sjálfsforræði okkar í efnahagsmálum undangengin ár.

Við í Samfylkingunni höfum allt frá stofnun lagt áherslu á að til þess að hér yrði farsæl uppbygging í efnahags- og atvinnumálum til lengri tíma þyrftum við að efla alþjóðlegt samstarf okkar. Við þyrftum að verða aðilar að samvinnu evrópskra þjóða í Evrópusambandinu og öllum þeim stofnunum. Myntkerfinu, Evrópska seðlabankanum, þinginu, ráðherranefndinni o.s.frv. sem gæta að þeim markaði og verja fólk og fyrirtæki þegar markaðurinn brestur eða efnahagsleg áföll dynja yfir, eins og nú gerist um allan heim. Ég held að engum blandist hugur um að sá málflutningur Samfylkingarinnar allt frá stofnun hennar undir lok síðustu aldar hafi bæði verið málefnalegur og sannarlega réttmætur.

Gegn honum voru oft og tíðum færð sjálfstæðisrökin um að við mundum með því fórna sjálfstæði okkar. En sannarlega er það fjarri öllu lagi. Sú staða sem við erum nú komin í er mesta ósjálfstæði sem við höfum upplifað á lýðveldistímanum. Því einangrunarstefnan sem hér hefur verið rekin hefur auðvitað á endanum leitt til þess að við erum beiningarmenn í borgum heimsins og höfum farið land úr landi í leit að fjármagni sem ekki var falt og misst kerfið okkar niður. Mikilvægt er að við lærum af því.

Einnig er mikilvægt þegar við fjöllum um áætlunina að í því sem sérstaklega fellur undir Alþingi Íslendinga í henni, ríkisfjármálin og þau erfiðu verkefni sem þar eru fram undan, lærum við líka af mistökum sem hafa verið gerð á undanförnum áratugum. Við munum ekki á næstu árum hafa það svigrúm sem við höfum haft um margra ára skeið til þess að fara fram úr fjárlögum. Til þess að hafa lélegt eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Til þess að auka útgjöld óhóflega.

Í þeim aðgerðum sem við fjöllum um verður ábyrgð Alþingis sem fjárveitingavalds auðvitað ekki síst í þeim þætti að taka á fjármálum ríkisins af þeirri festu og alvöru sem nauðsynlegt er. Það verður að segja eins og er, virðulegur forseti, að það höfum við sem stofnun ekki gert um langt árabil. Hér hefur framkvæmd fjárlaga verið í ólestri. Við höfum fjölmörg dæmi um stofnanir, jafnvel æðstu stofnanir ríkisins, sem aftur og aftur fara fram úr fjárheimildum. Um lélegar kostnaðaráætlanir, framúrkeyrslu upp á milljarða, jafnvel tugi milljarða, og ég vil segja sjálfvirkan vöxt á milli ára. Í þeim erfiðu niðurskurðarverkefnum sem fram undan eru er þess vegna nauðsynlegt að við tökum vel og fast á. Lausung í ríkisfjármálunum mun beint og harkalega bitna á velferðarþjónustunni í landinu. Ef við ætlum að standa þann vörð um velferðarþjónustuna, skólakerfið og heilbrigðiskerfið, sem við þurfum sannarlega að standa á Alþingi, þurfum við á þeim og öllum öðrum sviðum í ríkisrekstrinum að sýna festu og aðhald langt umfram það sem við höfum gert síðastliðin ár.