136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér agnarsmátt þingmál um afar stórt málefni. En til umræðu er tillaga til þingsályktunar svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.“

Síðan fylgir þessi viljayfirlýsing með þingplagginu í 27 liðum, undirrituðu af hæstv. fjármálaráðherra og formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Ég ætla ekki að endurtaka allt sem hér hefur verið sagt af hálfu félaga minna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég vísa að uppistöðu til í þeirra málflutning og í greinargerð 2. minni hluta með okkar afstöðu, en við erum á því máli að það eigi að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar og leita annarra lausna.

Á hitt er einnig að líta að ef þetta nær fram að ganga þá þarf ekki öll nótt að vera úti. Við eigum að sjálfsögðu að vinna að því sem kostur er og róa að því öllum árum að fá endurskoðaða þá skilmála sem settir hafa verið niður bæði varðandi afborganir af lánum og skuldabyrðar þjóðarinnar og þá hugsanlega einnig skilmála sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett okkur.

Við höfum fengið að kynnast þessum gesti á undanförnum dögum og vikum og við höfum séð fyrstu merki verka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fyrirskipun í fyrsta lagi um að hækka stýrivexti um 50%, nokkuð sem skilaði sér inn í allt fjármálakerfið og hefur þrengt að heimilum og fyrirtækjum í landinu með skelfilegum afleiðingum. Síðan er það skipun um að skera niður 10% hjá hinu opinbera. Þessu hefur verið haldið fram við þessa umræðu og engin andmæli hafa borist gegn því.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hafði uppi orð um það bæði hér í ræðustól og utan þingsins að menn fari með rangt mál þegar sagt væri að slík boð hefðu verið látin ganga út úr heilbrigðisráðuneytinu, nokkuð sem mér kom sannast sagna mjög á óvart eftir að ég skoðaði gögn sem send voru bæði frá fjármálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu í nafni heilbrigðisráðherra þar sem hann fagnar því hvernig heilbrigðisstofnanir hafa tekið í þessa málaleitan. En ég get alveg fullvissað þingheim um að fögnuðurinn var ekki samsvarandi hjá því starfsfólki sem er að missa vinnu sína eða þeim stofnunum sem er nauðsynlegt að draga úr umsvifum og þjónustu við sjúkt fólk af þessum sökum.

Síðan kemur fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar ekki að herða skrúfurnar fyrir alvöru fyrr en næsta ár er liðið. Það er horft til ársins 2010–2011 í því efni og talað um að þá eigum við að vera komin með hallalaus fjárlög eða að stefnt skuli að því. Það er nokkuð sem ég held að eigi að vera okkur á þessari stundu til umhugsunar þegar haft er í huga hverjar skuldabyrðarnar og þar af leiðandi afborganir af lánum koma til með að verða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem best verða greindar þá gæti svo farið að vaxtabyrðin, fjármagnskostnaðurinn af skuldbindingum í tengslum við þetta hrun og gjörðum ríkisstjórnarinnar nú gætu farið í hátt að fjórðungi fjárlaga. Ríkissjóður hefur verið rekinn með hagnaði á undanförnum árum vegna tímabundinnar þenslu skatta og þess sem við nú vitum og mörg höfðum áhyggjur af á undanförnum árum — í tengslum við fjárlagaumræðuna og komu þær áhyggjur ítrekað fram — að væri byggt á loftbólum, því miður, óeðlilega miklum innflutningi og þar af leiðandi streymi í ríkissjóð vegna skatta og af svona froðukenndri þenslu sem ekki reyndist vera innstæða fyrir.

Á þessum grunni gagnrýndum við skattalækkanir á sínum tíma og vöruðum við því að þegar að þessari þenslu linnti þá væri grunnurinn ekki eins traustur fyrir ríkissjóð sem stendur straum af kostnaði við velferðarþjónustuna í landinu. Ég vek athygli á þeirri hættu sem þarna er uppi, annars vegar kröfu um að reka hallalausan ríkissjóð þegar fram líða stundir og hins vegar hinu, að vaxta- og fjármagnskostnaður verði þá kominn í upphæðir sem eru af þessari stærðargráðu sem ég nefni.

Síðan vil ég nota tækifærið til að vísa í það sem sagt er um stefnu í kjaramálum. Í fylgiskjalinu með þingsályktunartillögunni sem áður er vísað til segir í 23. lið að mikilvægt sé að ná þjóðarsátt sem sé samrýmanleg við þjóðhagsleg áform þessarar ályktunar. Það er nú það. Ég er fyrir mitt leyti eindreginn talsmaður þess að landsmenn snúi bökum saman og að leitað verði allra leiða til þess að finna leiðir til að við komum sem best út úr þessu saman. Ég verð þó að segja að mörgu er ósvarað í þessu efni. Þegar fólk horfir á kjör sín horfir það ekki einvörðungu til þess sem sett er í vasann í launaumslaginu heldur einnig til hins sem út úr honum rennur. Þá er ég að horfa til útgjalda. Ég er að horfa til útgjalda í velferðarþjónustunni til dæmis sem skiptir miklu máli þegar að kreppir.

Ég vek athygli á því að í þessu plaggi, í þessari umræðu, hefur ekkert komið fram sem lýsir því hvaða áform eru uppi til dæmis varðandi heilbrigðisþjónustuna. Á að halda áfram að einkavæða og markaðsvæða hana? Er það á vinnsluborði ríkisstjórnarinnar? Það væri fróðlegt að heyra hvaða áform eru þar uppi. Ætlar ríkisstjórnin á komandi mánuðum og missirum að halda með velferðarkerfið, og horfi ég þá ekki síst til heilbrigðisþjónustunnar, út á markaðstorgið sem reynst hefur okkur eins fallvalt og dæmi undangenginna vikna sýna okkur? Þetta er nokkuð sem ég er sannfærður um að verkalýðshreyfingin mun vilja frá svör við áður en upp er staðið.

Menn hafa rætt nokkuð ábyrgð í þessum málum. Við höfum rætt það meðal annars í samhengi við skýrslu eða frumvarp öllu heldur sem liggur fyrir þinginu um sérstaka rannsóknarnefnd. Við fjölluðum um hana fyrir fáeinum dögum. Hún er til umfjöllunar í allsherjarnefnd þingsins. Ég vakti máls á ýmsum þáttum sem ég tel æskilegt að herða á til dæmis varðandi rannsókn á fjármálaflutningum. Það kom fram almenn samstaða um það hér í þinginu að menn vildu ítarlega rannsókn sem næði aftur til fyrstu skrefa sem stigin voru í tengslum við einkavæðingu bankanna og ég vek athygli á því að til dæmis núna eru menn komnir með fjármálafyrirtækin í Lúxemborg og í Noregi á söluskrá. Um leið og það hefur gerst, um leið og búið er að selja frá okkur þessi fyrirtæki þá er búið að loka þessu bókhaldi. Ég svona leyfi mér að leggja áherslu á að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að mikilvægar upplýsingar um fjármagnsflutninga löglega — ólöglega öllu heldur og löglega en á mjög gráu siðferðilegu sviði, verði ekki settir á bak einhvers leyndarhjúps.

Mín skoðun er sú að æðimargir beri ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni. Það eru náttúrlega fyrst og fremst þeir bankamenn, fjármálamenn, sem farið hafa offari svo ekki sé nú sterkara að orði kveðið. Síðan eru það ríkisstjórnir sem hafa verkstýrt fjármálakerfinu og þjóðfélaginu reyndar öllu út á þær brautir sem það er komið, meðal annars með markaðsvæðingu fjármálakerfisins án þess að reisa varnarmúra um hagsmuni almennings. Það eru eftirlitsstofnanir. Menn hafa horft til Seðlabankans um að hann hafi ekki verið nægilega vakandi á verðinum og nú deila menn um ýmsar yfirlýsingar seðlabankastjóra. Allt þetta þarf að skoða. Allar þessar stofnanir þarf að rannsaka og leiða hið sanna og rétta í ljós.

Ég er þeirrar skoðunar að höfuðábyrgðin liggi hjá ríkisstjórninni, liggi hjá núverandi ríkisstjórn, sé litið til þess vanda sem skapaðist hér á síðustu mánuðum þá liggi ábyrgðin hjá ríkisstjórninni sem núna situr. Staðreyndin er sú að hún fékk í hendur — oddvitar ríkisstjórnarflokkanna fengu upplýsingar um þær hættur sem voru uppi í byrjun þessa árs. Þeim bar skylda til að fara með þær upplýsingar á markvissari hátt inn í ríkisstjórn en gert var. Ég er ekki að segja og hef aldrei haldið því fram að ráðherrar hefðu á því stigi átt að stíga fram og segja að íslenska fjármálakerfið væri að hrynja. Ég er ekki að halda því fram. Það átti að grípa til ráðstafana sem væru líklegar til þess að draga úr hættunni á slíku.

En hvað gerðu þau? Hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fóru þvert á móti í sérstaka áróðursherferð úti í heim með útrásarvíkingunum, til Kaupmannahafnar, til New York, í því skyni að segja umheiminum að allt væri hér með felldu, að allt væri í himnalagi. Það er á þessum tíma, þegar þessi boð eru látin ganga út til fjárfesta í Icesave og þeim fjármálastofnunum sem hafa síðan verið að hlaða á okkur þessum skuldabyrðum, það er á þessum tíma sem þessar skuldbindingar vaxa hraðast. Þá eru oddvitar ríkisstjórnarinnar á fréttamannafundum um heiminn með útrásarvíkingum að segja fjárfestum að þeir geti fjárfest óhræddir. Þarna liggur hin stóra pólitíska ábyrgð. Menn mega ekki horfa fram hjá þessu þegar þeir í ákefð sinni vilja gera hlut verkstjórans í einkavæðingu undangenginna ára, Davíðs Oddssonar, sem verstan. Hann á mikla sök á því hvernig komið er fyrir okkur. Hann var verkstjóri þegar að fjármálakerfið var markaðsvætt á sínum tíma, hundsaði hugmyndir og tillögur sem fram komu um að reisa þessa varnarmúra. Hvað eftir annað voru settar fram tillögur um það efni. Ég gerði það margoft svo dæmi sé tekið. En núna þegar horft er til þess tíma sem liðinn er síðustu mánuði og missiri þá er ábyrgðin ekki hans. Þar er ábyrgðin oddvita ríkisstjórnarflokkanna. Það eru þeir sem brugðust og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi brást. Það er hin stóra ábyrgð. Þess vegna er krafan sú að ríkisstjórnin víki.

Ég er búinn að fara á þrjár ráðstefnur erlendis að undanförnu. Ég sótti fund norrænu verkalýðssamtakanna, þ.e. stjórnar norrænu verkalýðssamtakanna í fyrsta lagi, í öðru lagi norrænna bæjarstarfsmanna og núna í vikunni, í fyrradag, þá var ég á fundi verkalýðssamtaka Evrópu. ETUC er það kallað, European Trade Union Confederation í Brussel þar sem ég skýrði stöðu Íslands. Ég var nú ekkert sérstaklega á þeim bænum að fjalla um okkar innri átök. Ég eyddi frekar orðum að Bretum og Gordon Brown og hvernig Bretar hefðu komið fram við Íslendinga. Ég vakti athygli á því að í fjölþjóða- og alþjóðavæddum heimi gerðust samfélögin og þjóðirnar innhverfar, horfðu inn á við. Það ætti við um ríki innan Evrópusambandsins ekkert síður en þau sem standa þar fyrir utan. Hvers vegna skyldu Bandaríkjamenn hafa bjargað Bear Stearns bankanum en ekki Lehman Brothers? Gæti ástæðan verið sú að skuldunautar á Lehman Brothers bænum voru í útlöndum, 90%, voru utan Bandaríkjanna gagnstætt því sem var hjá Bear Stearns, þess vegna hafi Lehman Brothers verið látinn gossa en Bear Stearns bjargað? Þúsundir manna misstu atvinnuna þegar Lehman Brothers fór á hausinn í London. Milljarðar punda voru fluttar daginn áður eða á síðustu dögunum frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Bretar beittu ekki Bandaríkjamenn hryðjuverkalögum. Það gera þeir ekki. Þetta er spurning um vald og áhrif og misnotkun á valdi. Það er þetta sem ég orðaði þarna. En í samtölum við menn innan verkalýðshreyfingarinnar spyrja menn. „En situr stjórnin enn?“ Já, já. „Og ætlar að sitja?“ Ja, það eru engin merki þess að hún ætli að hreyfa sig. Hún segist hafa verk að vinna og að ekki megi skipta um hest í miðri á. En þegar menn horfa á hana blýfasta á bikkjunni úti í foraðinu talandi á þennan veg þá skilur enginn upp né niður í neinu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að þegar reiði magnast í samfélagi eins og við erum að verða vitni að núna, ekki alltaf á mjög markvissan hátt, ekki alltaf þannig að fólk viti nákvæmlega hvað það vilji, þá eigum við og þá ber stjórnvöldum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að beina slíkri reiði inn í lýðræðislegan, markvissan og uppbyggilegan farveg. Eitt af því sem menn geta gert er að ákveða kosningar í landinu, hvenær þær skuli fara fram, segja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að segja af sér til að þjóðin fái tækifæri til þess að velja ríkisstjórn með raunverulegt umboð. Það getur ekki verið rétt að ríkisstjórn sem hefur orðið eins herfilega á og ríkisstjórninni hefur óumdeilanlega orðið núna á undanförnum mánuðum og missirum geti setið áfram. Það getur vel verið, það veit ekkert okkar, hvort þjóðin mundi endurnýja umboð þessarar ríkisstjórnar eða þessara stjórnarflokka eða hvert stjórnarmunstrið yrði eða hvort jafnvel þessi ríkisstjórn sæti áfram. En þá er hún komin með endurnýjað umboð og það er þetta sem okkur ber að gera núna, þ.e. að hlusta á rödd þjóðarinnar.