136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við erum í síðari umræðu um þingsályktunartillögu um fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem er afskaplega stórt og mikið mál og tengist næsta dagskrármáli — eða ég vil alla vega tengja það því — heimild til að ganga til samninga við Breta og Hollendinga, eða eiginlega Evrópusambandið, um hina svokölluðu Icesave-reikninga.

Hv. efnahags- og skattanefnd fjallaði um málið að beiðni hv. utanríkismálanefndar og í umsögn 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar, sem ég skrifaði undir, kemur fram að rætt var að nauðsynlegt sé að fá alþjóðlega aðstoð fyrir Íslendinga til að vinna sig út úr fyrirsjáanlegum efnahagsvanda af ýmsum toga. Í fyrsta lagi hruni bankakerfisins og afleiddum áhrifum þess á mörg fyrirtæki í landinu, eignatapi upp á 1.000 milljarða, þar af 130 milljarða tapi hjá einstaklingum, venjulegu fólki sem tapaði hlutafé sínu. Hætta er m.a. á vaxandi atvinnuleysi og gjaldþrotum sem afleiðingu þess.

Annars vegar er um að ræða deilur við mörg nágrannaríki um stöðu innlánsreikninga þeirra. Ég og margir fleiri og eiginlega flestir eru á þeirri skoðun að Íslendingum beri ekki að greiða samkvæmt lögum umfram það sem innlánstryggingarsjóður greiðir. Bretland og Holland stoppuðu fyrirgreiðslu á þessu máli hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum því að þeir eiga þar fulltrúa í stjórn og tókst síðan að sameina allt Evrópusambandið gegn Íslandi í málinu. Það sýnir og ætti að sýna þeim sem vilja ganga inn í það ágæta samband að skilningur manna í Brussel er ekkert voðalega mikill á stöðu Íslands, hversu lítið Ísland er og hver vandamál okkar eru og ég hugsa að sá skilningur mundi ekkert vaxa þó að við yrðum fyrir þeirri ógæfu að ganga í Evrópusambandið. Þá yrðum við bara lítill hreppur í risastóru ríki og menn í Brussel eru svo sem ekkert illviljaðir, ekki frekar en Danir voru í hundruð ára, en hafa engan skilning á vandamálum Íslendinga. Það held ég að muni vega mjög þungt ef við gengjum inn í sambandið til þessara svokölluðu vina okkar. Ég kalla þá „svokallaða vini“ því ekki er vinarbragð að kúga Íslendinga eftir að við lentum í því gífurlega áfalli að missa nánast allt fjármálakerfið á einni viku.

Þriðji vandinn er gífurlegar lánveitingar erlendra lánardrottna til íslensku einkabankanna sem hafa tapast að miklum hluta. Um þvílíkar tölur er að ræða að þeir lánuðu 40 milljónir á hvern einasta Íslending sem eru 160 milljónir á fjögurra manna fjölskyldu, hjón með tvö börn, og allir sjá og það áttu þeir líka að gera að slíkt gengur ekki upp.

Svo höfum við glímt við jöklabréfin sem hafa valdið miklum þrýstingi á gjaldeyrismarkaðinn og leitt okkur til þeirrar — að mínu mati mjög slæmu — niðurstöðu að setja upp gjaldeyrishöft. Ég er engan veginn hrifinn af því, langt í frá, en við þurfum einhvern veginn að ráða við jöklabréfin sem streymdu hér inn og héldu genginu uppi á tímabili en streyma nú út og halda genginu niðri. Gengið var sett á flot í gær og krónan hækkaði þá um 8% og hefur nú hækkað um 10,5% þannig að þetta virðist ganga mjög vel en er að sjálfsögðu eingöngu vöruskiptamarkaður, gengismarkaður sem tengist vöruskiptum og einhverju smávegis fyrir námsmenn og ferðamenn. Jöklabréfin geta ekki farið út á þessu gengi. Þetta mun væntanlega hafa áhrif á verðlag í þjóðfélaginu, og ef staðan í dag og í gær verður varanleg mun verðbólga lækka mjög hratt og að því leyti er nokkuð útlit fyrir að við ráðum við jöklabréfin.

Þessar aðgerðir munu leiða til mikillar skuldaaukningar fyrir ríkissjóð, fjármagna þarf nýju bankana, ríkisbankana, mæta skuldbindingum vegna innstæðureikninga og endurfjármagna Seðlabankann að einhverju leyti. Allt kostar þetta fé og þarf að mæta með niðurskurði útgjalda, skattahækkunum eða skyldusparnaði, sem ég vildi gjarnan að menn skoðuðu mjög náið vegna þess að við erum að tala um stuttan tíma. Setja mætti á skyldusparnað sem yrði leystur út seinna og mætti kannski nota skyldusparnaðinn til að fjármagna bankana — menn skyldu skoða það — og skylda almenning til að kaupa hlut í bönkunum. Ég hugsa að það yrði vinsælla en skattahækkun.

Efnahags- og skattanefnd ræddi ítarlega um skuldbindingar Íslands vegna innlánsreikninga í útibúum íslensku bankanna erlendis og spurðist fyrir um aðferðafræðina sem íslensk stjórnvöld hefðu reitt sig á í samningum um lausn þess. Eins og kom fram í máli mínu áðan er þetta kúgun Evrópusambandsins alls, það kúgar Ísland til að semja og maður í sjálfu sér spyr ekkert að því þegar maður mætir ræningja hvort réttmætt sé að afhenda honum veskið, maður afhendir honum veskið, það er svo einfalt. Menn skulu átta sig á því að þetta er ekki spurning um réttmæti eða annað slíkt, heldur hvað við gerum þegar við lendum í þeirri stöðu að vera kúguð og tapa, að sjálfsögðu.

Síðan kemur fram í þingsályktunartillögunni, sem við ræðum hér á eftir um að heimila utanríkisráðherra að semja við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana, að íslenska ríkið hafi í ljósi þeirra aðstæðna sem þar greinir frá talið þjóna hagsmunum Íslands að ganga í ábyrgðir fyrir lánveitingum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Þetta er að sjálfsögðu gert í ljósi þeirrar kúgunar sem við stöndum frammi fyrir og er eiginlega bara uppgjöf í ófriði og ætti að vera með hvítum fána og friðarsamningum.

Þá kemur fram að á næstunni fari fram framhaldsviðræður um frekari útfærslu lánanna og við hvetjum til þess að hugað sé sérstaklega að greiðslugetu Íslands og hagsmunum komandi kynslóða hérlendis. Í því sambandi má benda á að það sjónarmið kom fram á fundi nefndarinnar að ekki hvíldi þjóðréttarleg skylda á íslenska ríkinu til að bera ábyrgð á innlánum íslensku bankanna í útibúum erlendis, það er ekki lagaleg skylda, það er bara kúgunarskylda.

Einnig kom fram og er ítrekað í nefndarálitinu að mikilvægt sé að öll vandamálin sem hér hafa verið reifuð verði leyst saman, en ekki að eitt og eitt ráðuneyti semji, utanríkisráðuneytið um þetta, fjármálaráðherra um hitt o.s.frv. Þetta þarf allt að leysa sem einn pakka og hafa í huga að mesta auðlind þjóðarinnar, mannauðurinn, haldist í landi, því að það er forsenda þess að Ísland geti í framtíðinni greitt eitthvað af kröfum ríkisstjórna og erlendra lánardrottna, vegna þess að allir hagnast á því, breska ríkið, hollenska ríkið, lánardrottnarnir, sem ég á eftir að nefna, og íslenska þjóðin, að mannauðurinn haldist í landinu og verði ekki atvinnulaus og flýi land eins og hefur gerst mjög víða.

Ég ætla að undirstrika það aftur og koma inn á fjórða þáttinn, sem eru kröfuhafarnir sem áttu kröfur upp á 40 milljónir á hvern íbúa og segja að ef ekki verði fundin lausn sem þeir eru sáttir við muni Íslendingar eiga erfitt með að fá lán í heiminum næstu áratugina. Að sjálfsögðu munum við þurfa á lánum að halda, nú eins og hingað til, fyrir atvinnulífið og kannski sérstaklega þegar uppbyggingarstarf, eins og við stöndum frammi fyrir, fer fram, þannig að við þurfum að gera vel við þá, þeir þurfa líka að koma að samkomulaginu. Þess vegna skora ég á hæstv. forsætisráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, Seðlabankann og hæstv. fjármálaráðherra að þeir vinni nú allir saman að lausn málsins, en ekki hver í sínu horni, að þeir tali saman. Það eru til símar, gemsar og tölvupóstur og í gamla daga voru til hestar til að fara á milli, allt er mögulegt til að eiga samskipti þannig að ég skora á þá að hafa samvinnu og samskipti í málinu þannig að allir viti hvað hinir eru að gera í því, vegna þess að mikið liggur við. Einn getur skuldbundið íslensku þjóðina svo hún rétt ráði við það, t.d. utanríkisráðuneytið, það gengur vel, en svo gæti fjármálaráðuneytið samið við Breta eða viðskiptaráðuneytið við kröfuhafana og líka lestað þjóðina að sömu mörkum, en þegar allt kemur saman ræður þjóðin ekkert við það og allir tapa, kröfuhafar jafnt sem ríkisstjórnir og eigendur Icesave-reikninga. Því er mjög mikilvægt að menn vinni saman.

Svo væri æskilegt í þessu eins og öllu öðru að menn hafi alltaf plan B: Hvað gerist ef við náum ekki samkomulagi, hvað gerist ef þetta og hitt gerist? Ég held að mjög mikilvægt sé að menn hafi alla möguleika í hendi.

Ég mun styðja þingsályktunina vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að við fáum aðstoð við að laga efnahagsástandið hjá okkur þó að því miður hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki verið okkur til hjálpar eins og hann á að gera. Í raun skaðaði hann okkur. Þó að sjóðurinn sé ætlaður til að hjálpa þjóðum var hann misnotaður þannig að hann skaðaði okkur fyrsta kastið. En nú fer hann sennilega að aðstoða okkur þegar þessi staða er komin upp og ég ætla að vona að hann taki þátt í því að vinna að friðarsamkomulaginu sem íslenska þjóðin þarf að gera eftir að hún tapaði í þessum ófriði við Evrópusambandið.