136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð í framhaldi af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag um aðdraganda þessa máls og stöðu þess og um það hvort þingið sé í stakk búið á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja að taka afstöðu til þingsályktunartillögunnar.

Ég vil byrja á því að segja að hér hefur komið fram gagnrýni á það að IMF-málið, þ.e. beiðni um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi ekki komið til kasta þingsins fyrr. Á sama tíma er það gagnrýnt í þessu máli að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að taka afstöðu í málinu um það hver greiðslubyrði okkar vegna mögulegrar lántöku kemur til með að verða. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst þetta tvennt stangast á.

Það stangast auðvitað á að vilja fá málið til umfjöllunar áður en vinnan er hafin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þegar því er lokið og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda liggur fyrir um það hvernig við endurreisum efnahagslegan stöðugleika að þá séu ekki til nægar upplýsingar til að taka afstöðu til málsins.

Það er í sjálfu sér rétt, sem fram hefur komið í umræðunni í dag, að töluverð þoka er yfir því sem fram undan er. Við því er því miður lítið að gera. Ekki er mikið við því að gera að við höfum ekki fulla yfirsýn yfir það í dag að hve miklu marki við munum þurfa að draga á lánalínur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess til að mynda að styrkja gengi krónunnar. Við vonumst auðvitað til þess að við þurfum að gera það í afskaplega litlum mæli. Við vonumst til þess að þetta samspil aðgerða stjórnvalda sem birtist m.a. í hærri vöxtum, sem birtist í höftum á frjálst flæði fjármagns, sem birtist í öflugri gjaldeyrisvarasjóði og að öðru leyti í þeim reglum sem Seðlabankinn hefur sett á grundvelli nýsettra laga — auðvitað birtast aðgerðirnar líka í því að menn vilja draga saman í ríkisfjármálunum. Við höfum engan veginn fulla yfirsýn yfir það hvernig þessar aðgerðir allar saman koma til með að létta okkur það verk að styrkja gengi krónunnar að nýju, forða okkur frá verðbólgunni og skapa grundvöll að lækkun vaxta.

Þess vegna er ekki á sama tíma hægt að gera skilyrðislausa kröfu um að við teflum fram upplýsingum um hver afborgunin verður af þessum lánum. Við vitum hins vegar að við þurfum að taka lán til þess að endurreisa eigið fé íslensku bankanna. Óvissan í því efni lýtur fyrst og fremst að því að hve miklu leyti erlendir aðilar munu koma þar inn sem eigendur. Fyrir liggja yfirlýsingar frá stjórnvöldum eða frá ríkisstjórn um að áhugi sé á því að fara í viðræður við kröfuhafa um að þeir geti breytt skuldum sínum í hlutafé í ríkisbönkunum. En þar til einhver niðurstaða liggur fyrir um þetta er erfitt að gefa sér neinar forsendur um áætlaða greiðslubyrði lána vegna eiginfjárframlags til ríkisbankanna. Það er svo sem hægt að nota hæstu tölurnar og við höfum verið að horfa á þær. Þær miðast þá við það að ríkið sé einn eigandi að ríkisbönkunum.

Við vitum líka að lántaka til þess að styðja við eigið fé Seðlabankans er nauðsynleg og maður hlýtur að spyrja í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í dag: Vilja menn ekki að eigið fé verði sett inn í íslensku ríkisbankana? Eru einhverjir valkostir um það? Eru menn að halda því fram í þessari umræðu að við höfum um það val hvort við tökum þessi lán til að grípa til þessara aðgerða eða ekki? Er einhver valkostur við það hvort við reisum við styrk Seðlabankans eftir þau áföll sem á honum hafa dunið? Ég held að það sé enginn valkostur um þetta.

Menn fjalla hér líka um ríkisfjármálin og þann niðurskurð sem fyrirhugaður er. Í umræðum í dag hefur komið fram mjög hörð gagnrýni á það að við skulum ætla að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem gerir þá kröfu, eins og það er orðað hér, að skorið verði niður í ríkisfjármálunum.

Hér er að verða um það bil 10% samdráttur í þjóðarframleiðslunni. Er það sem sagt hugmynd þeirra sem harðast gagnrýna þetta að við skerum ekki niður í ríkisfjármálunum? Er verið að leggja til að við sættum okkur við hvað, 200 milljarða halla á ríkisfjármálum? Um hvað snýst þessi umræða eiginlega? Eru einhverjir þeir þátttakendur í þessari umræðu sem halda því fram að hægt sé að komast í gegnum þann gríðarlega skafl sem er fram undan án þess að draga saman í ríkisfjármálunum? Án þess að mæta þessu mikla áfalli hjá ríkinu eins og annars staðar?

Við eigum eftir að ræða það í umræðu um fjárlögin hvar skynsamlegast er að drepa niður fæti í þessu efni. En prinsippið hlýtur að vera alveg ljóst, það prinsipp að draga þurfi úr. Mér finnst því skrýtið að það sé gagnrýnt með jafnharkalegum hætti og komið hefur fram í umræðunni í dag, að þetta sé planið, þetta sé stefnan og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kennt um. Ég held að það sé dregin upp röng mynd af þessu. Þetta eru hlutir sem við stóðum frammi fyrir óháð því hvort við ætluðum í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða ekki.

Mér sýnist hins vegar að það sé að koma í ljós í gær og í dag að helstu áætlanir okkar um að ná að nýju styrk í gengið séu að ganga eftir. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér þykir þetta gerast fullhratt, jafnvel óþægilega hratt sem vekur mann til umhugsunar um það hvort við séum mögulega að taka málin of föstum tökum. Er ég þá að vísa til þess hvort svo kunni að vera að við séum bæði með of háa vexti og of stífar reglur um fjármagnsflutninga á sama tíma. Í öllu falli hlýtur það að koma til skoðunar fyrir Seðlabankann að selja krónur inn á markaðinn til þess að draga úr svona öfgafullum viðsnúningi í genginu. Það er ekki til heilla fyrir okkur að þetta gerist svona snarpt og svona bratt (Gripið fram í.) þó við að sjálfsögðu fögnum því að þróunin sé í rétta átt.

Hér hefur líka verið fjallað um Seðlabankann og býsna mikilli skuld skellt á hann fyrir of háa vexti í gegnum tíðina. Ég hallast að því að þau mál verði öll að skoða í samhengi. Við þurfum að horfast í augu við það að við höfum farið fullglannalega og lagt of miklar byrðar á Seðlabankann. Í kjölfarið hættir íslenska krónan að endurspegla raunverulegan styrk íslenska hagkerfisins í samanburði við hagkerfin í löndunum sem við eigum viðskipti við.

Það var falskur styrkur í íslensku krónunni sem byggðist á því að of miklar byrðar höfðu verið lagðar á Seðlabankann. Hann brást þannig við að hækka vextina og á einhverjum tímapunkti fóru vextirnir fram úr því sem getur verið eðlilegur vaxtamunur við önnur hagkerfi viðskiptalanda okkar og fóru að kalla á fjárfestingu í krónunni og um leið hætti krónan að gegna því meginhlutverki sínu sem menn vilja alltaf að myntir sínar geri, sjálfstæðar myntir, sem er að endurspegla einhvern raunveruleika í undirliggjandi hagkerfi og hann þarf síðan í gengismálunum að endurspegla stöðuna gagnvart löndunum sem við eigum viðskipti við. Í þessu tilviki vorum við komin með styrk sem er langt umfram það sem hagkerfið stóð undir, og ég held að stjórnvöld eigi að líta meira í eigin barm og minna upp í Seðlabanka í þessu efni. Við vorum einfaldlega að reyna að gera of marga hluti á of skömmum tíma.

Það er stóri lærdómurinn sem við getum dregið af þessu tímabili. Það er það sem einn seðlabankastjóranna fjallar um í blöðunum í dag þegar hann veltir upp þeirri spurningu hvort þetta sé yfir höfuð hægt. Er hægt að halda úti íslenskri krónu? Það er gríðarlega vandasamt að gera það en það verður alveg örugglega ekki gert án þess að miklu meiri agi sé í ríkisfjármálum en var á umliðnum árum. Ég held þá að það sé rétt að taka með opinber fjármál í heildina vegna þess að svo miklu leyti sem ríkisvaldið dró úr þensluhvetjandi framkvæmdum og öðru því sem það gat gert þá sýndi það sig að sveitarfélögin fylltu jafnóðum í gatið og skildu vandann eftir jafnmikinn og fyrir hafði verið. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur hér í dag um myntina og hlut Seðlabankans í þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Fyrst og fremst finnst mér mikilvægt að koma því til skila að það hafi ekki verið valkostur fyrir stjórnvöld að koma hér áður en ákvörðun var tekin um að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og bera það álitaefni undir þingið. En um leið og stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafði samþykkt viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda var það þingmál lagt fram sem við ræðum hér í dag. Ég er sammála þeim þingmönnum sem lýst hafa yfir vonbrigðum með að ekki skuli vera hægt að hafa skýrari mynd fyrir framan sig þegar við ræðum þetta mál.

En það er bara einfaldlega þannig að ekki er á allt kosið í þessu. Við stöndum frammi fyrir slíkum óvissuþáttum, frammi fyrir verkefnum þar sem óvíst er um framvinduna — við þurfum að sætta okkur við að taka afstöðu til prinsippsins um það hvort við viljum fara í samstarf með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli þeirra viðmiða sem fyrir liggja og þeirrar efnahagsáætlunar sem unnin hefur verið í samstarfi við þá eða hvort við viljum fara einhverja aðra leið. Í því efni held ég að dagurinn í gær og dagurinn í dag sýni að við erum að byrja að ná tökum á vandanum. Það er alveg ljóst að án þess að settar hefðu verið þær reglur sem við gerðum hér í síðustu viku og án þess að fyrir lægi víðtækt plan í því formi sem við höfum nú búið til í samstarfi við sjóðinn værum við ekki komin þetta langt fram á veginn og raun ber vitni.

Auðvitað var það líka valkostur að láta krónuna bara húrra niður í miklu meiri veikingu en þegar var orðin. En það var ekki valkostur sem hefði verið án afleiðinga. Grípa hefði þurft til víðtækra ráðstafana til að mæta þeim vanda sem þá hefði risið í staðinn fyrir þá stöðu sem við eigum nú við. Algjörlega ófyrirséð hvar við hefðum endað með verðbólguna og hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir gjaldmiðilinn til lengri tíma. Það er líka erfitt að spá fyrir um getu okkar til þess að snúa þeirri þróun við.

Við erum ekki að samþykkja einhver tiltekin útgjöld. Við erum ekki að samþykkja einhverjar tilteknar afborganir af væntanlegum lánum. Við erum að fjalla um ákveðna aðferðafræði við að glíma við efnahagsvandann eins og fram hefur komið hér. Við erum fyrst og fremst að horfa á gjaldmiðilinn og endurreisn hans. Við ætlum að koma í veg fyrir verðbólgu. Við erum með plan á borðinu sem miðar að því að við getum farið að lækka vexti innan skamms og ná þeim niður í það sem er þolanlegt fyrir fjölskyldur og atvinnulíf.

Það hefur verið rætt um það hér að menn sakni þess í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar að ekki sé fjallað um aðgerðir í þágu fjölskyldna og atvinnulífs. Þetta eru einmitt aðgerðir í þágu fjölskyldna og atvinnulífs. Það er ekkert sem skiptir fjölskyldur meira máli en að lag komist á gengismálin, að við forðum okkur frá verðbólgu, að við náum niður vöxtunum. Það er ekkert sem skiptir þessa aðila meira máli en það og það er það fremsta í þessu máli, það er aðaláhersluefnið að okkur takist þetta.

Enn og aftur: Ég held að við séum á réttri leið og þess vegna er skynsamlegt af okkur að veita ríkisstjórninni brautargengi til þess að halda áfram á þessari vegferð í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég vonast til þess að okkur lánist að halda þannig á spöðunum að sem allra minnst þurfi að draga á þær lánalínur sem verið er að opna hjá þeim og hjá samstarfsþjóðum okkar. Það væri langfarsælast fyrir okkur til lengri tíma litið að við kæmumst í gegnum þennan skafl án þess að lenda með greiðslubyrði vegna slíkrar lántöku.