136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott fyrir hv. þm. Bjarna Benediktsson, hans sjálfs vegna, að honum skuli líða svona vel með þetta mál. Hv. þingmaður talaði sig hér upp í þó nokkurn sannfæringarhita yfir því hvað þetta gengi nú í raun og veru vel og liti bærilega út.

Ég mótmæli því hins vegar að einhver mótsögn sé fólgin í því að gagnrýna ónógar upplýsingar í sambandi við þetta mál og það að Alþingi hefði ekki getað komið að því fyrr. Það er bara ósköp einfaldlega ekki rétt. Það er ekki innstæða fyrir þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að í þessu felist mótsögn.

Hið rétta er að sjálfsögðu að þingið átti að koma að þessu strax á frumstigi, vera t.d. með í ráðum og fara yfir skilmálana áður en umsókn hefði verið send. Það hefði verið eiginlegt þingræði í reynd, þingræði sem virkaði. Ekki datt Bandaríkjaþingi í hug að láta ríkisstjórn Bush fara af stað með 700 milljarða dollara björgunarpakkann fyrir fjármálaheiminn þar fyrr en það var sjálft búið að fjalla um skilmálana og gera á þeim breytingar. Bush datt það bara ekki í hug. Á þinginu í Úkraínu var fjallað samhliða um skilmálana þegar ríkisstjórn Úkraínu ræddi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fyrirgreiðslu þar o.s.frv. þannig að auðvitað hefði það verið virkt þingræði í reynd að Alþingi, a.m.k. viðkomandi þingnefnd, hefði verið með í ráðum strax í byrjun og eftir að umsóknin fór þá af stað, notað síðan tímann til að safna upplýsingum og vinna málið.

Að öðru leyti fór hv. þingmaður að mestu leyti með það sem ég kalla í grófum dráttum nauðhyggjuröksemdir, að þetta sé bara svona og að ekkert annað sé að gera. Menn geta auðvitað haft það fyrir sig.

Þegar hv. þingmaður spyr hvort menn séu virkilega ósammála því að það eigi að skera niður t.d. ríkisútgjöldin um 10% núna er svarið já. Ég er ekki sannfærður um að það sé gáfuleg leið, að dýpka með því kreppuna, auka með því atvinnuleysi sem aftur leiðir til útgjalda hjá ríkissjóði í gegnum félagsleg úrræði og atvinnuleysisbætur. Þetta er gamla hörmungaraðferðin sem margar þjóðir hafa brennt sig á, að ætla að spara sig eða skera sig niður í gegnum kreppuna. Menn þurfa að gæta mjög hófs í því (Forseti hringir.) þannig að af tvennu vil ég frekar meiri halla á ríkissjóði og minna atvinnuleysi ef þarf að velja.