136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aftur að þessu með aðkomu þingsins. Bréf Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er dagsett 3. nóvember. Áætlunin lá þá fyrir allmörgum dögum áður. Þetta vita menn. Ég var t.d. búinn að hafa hana sem trúnaðarmál í viku.

Halda menn ekki að þannig hefði mátt standa að málum að a.m.k. þingnefndum hefði í trúnaði verið gert innihaldið ljóst og það rætt við þær? Utanríkismálanefnd er bundin trúnaði hvort eð er í öllum sínum störfum. Meira en mánuður er liðinn síðan erindið var sent. Auðvitað hefði mátt standa mun betur að þessum þætti, ég bakka ekki tommu með að það er gagnrýnivert hversu seint Alþingi kemur að málinu og hversu lítinn tíma það hefur til að reyna að skoða það og draga fram upplýsingar sem var nú ekki létt verk eins og ég veit að hv. formaður utanríkismálanefndar veit vel.

Það er grundvallarmunur á þeirri skuldsetningu sem við lendum í vegna þessara aðgerða og er hér innan lands í formi halla á ríkissjóði eða í formi endurfjármögnunar banka með innlendri skuldabréfaútgáfu og hinum gríðarlegu erlendu lántökum og erlendu skuldbindingum sem hér á að setja á þjóðina ofan á þegar eitt skuldugasta hagkerfið innan OECD gagnvart útlöndum.

Það er ekkert stórmál í mínum huga þótt ríkissjóður og sveitarfélögin séu rekin með einhverjum halla og þess vegna eitthvað meiri en ella væri ef það er skynsamlegur liður í því að verja landið fyrir fjöldaatvinnuleysi, dregur úr hættunni á því að atvinnuleysið festist hér í sessi og er í raun og veru aðferð til þess að sporna gegn og afstýra meiri útgjöldum síðar. Það kostar heldur betur sitt ef 10% þjóðarinnar eða meira verða án atvinnu.

Að lokum hrósa ég hv. þingmanni hér fyrir sjálfsgagnrýnina undir lok ræðu hans áðan eða gagnrýni í garð eigin flokks og frammistöðu hans í hagstjórn við efnahagsmál hér á undanförnum árum. Það er þó lofsvert að endrum og sinnum vottar fyrir því að einhverjir úr stjórnarliðinu viðurkenna að hugsanlega (Forseti hringir.) berum við Íslendingar sjálfir einhverja ábyrgð á því (Forseti hringir.) hvernig komið er.