136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að menn taki það ekki neitt persónulega en ég ætla eiginlega að spyrja sömu spurningar og í fyrri umræðu, sama hv. þingmann, framsögumann þessa máls. Það er þessi samræming allra aðgerða. Hér er aftur verið að tala bara um einn enda, eina aðgerð og ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið hugleitt í nefndinni að tengja þessi atriði öll saman, þ.e. hvernig við leysum jöklabréfin, hvernig við leysum aðkomu að kröfuhöfum bankanna og hvernig við leysum þetta mál þannig að þjóðin sé ekki lestuð um of.

Svo stendur í athugasemdum við tillöguna, með leyfi herra forseta:

„Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.“

Þetta er svona svipað og að senda mann út í bæ að kaupa hús. Við felum honum að kaupa hús alveg sama hvað það kostar og alveg sama hvað það er stórt eða lítið eða hvar það er staðsett og svo framvegis. Svo ætlum við að ræða það þegar kemur að því að borga einstakar greiðslur af húsinu. Þá náttúrlega þýðir ekkert að tala um það meir. Ef hann er búinn að semja fyrir okkar hönd um að kaupa hús þá borgum við náttúrlega af því einstakar greiðslur og getum ekki hvikað frá því. Ég sé því ekki hvernig í ósköpunum Alþingi ætlar að meta þessa samninga. Samningarnir sjálfir verða ekkert til umræðu. Við erum að fela sjálfdæmi þeim aðilum sem eru að semja fyrir okkur og það er eins gott að það séu klárustu menn í heimi. Ég bara segi ekkert annað. Það er eins gott að það séu mjög klárir menn og vinni mjög náið með skilanefndum bankanna sem eru líka að vinna að heill þjóðarinnar. Mér finnst þetta mjög mikið framsal á valdi og ætla að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rætt í nefndinni.