136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það atriði sem hv. þingmaður drepur hér á snýst í grunninn um það hvort þingið treysti framkvæmdarvaldinu til að leiða málið til lykta eða ekki eða hvort þingið treystir mögulega þingmönnunum og sjálfu sér betur til þess að fara með forræði í málinu.

Við afgreiddum hér í síðustu viku eða að minnsta kosti fyrir nokkrum dögum — ég hygg að það hafi verið í upphafi síðustu viku — vantrauststillögu á ríkisstjórnina sem var felld með miklum meiri hluta þannig að ríkisstjórnin nýtur stuðnings í sínum störfum. Hér er um að ræða gríðarlega stórt mál sem hún er nýbúin að sanna að hún hafi traust til þess að leiða til lykta. Ég verð aftur að ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni: Verkaskiptingin er þannig að framkvæmdarvaldið fer með mál af þessum toga innan þess umboðs sem því er skammtað í lögum og með ákvörðun frá Alþingi. Málið er ekki lagt þannig upp hér að þingið eigi að hafa hönd í bagga með samningaviðræðunum heldur er málið lagt þannig fyrir þingið — ég tek fram að það er engin sérstök lagaskylda til þess að leggja þetta mál fyrir þingið til samþykktar í sjálfu sér vegna þess að við erum ekki að fara að undirgangast hérna þjóðréttarlega skuldbindingu í hefðbundnum skilningi eins og við höfum tekið málið fyrir í utanríkismálanefnd — málið er lagt hér fyrir á grundvelli ákveðinna forsendna til þess að afla pólitísks stuðnings við áframhaldandi vinnu við það. Það er auðvitað í okkar höndum sem sitjum á þingi að taka afstöðu til þess hvort við teljum að málið sé í réttum farvegi. Ef við erum sammála um að við teljum að málið eigi að vera í öðrum farvegi eða unnið á einhverjum öðrum forsendum eða að samningsmarkmiðin séu óskýr eða óskynsamleg þá verður auðvitað þingið að senda þau skilaboð til ríkisstjórnarinnar að það eigi að halda öðruvísi á málinu.