136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:28]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður og allir þingmenn verði að tala mjög varlega í þessu máli og hafa fast land undir fótum ef þeir setja fram fullyrðingar í ætt við þá sem hv. þingmaður gerir í nefndaráliti sínu.

Ég held því fram að yfirlýsingar breskra stjórnvalda séu átylla og fullkominn tilbúningur. Ég tel að ekkert sé hægt að finna hjá íslenskum stjórnvöldum sem gefi tilefni til að beita hermdarverkalögunum bresku með þeim hætti sem gert var.

Ég vísa sérstaklega til bréfs, sem hefur m.a. verið rætt í þessum sölum, dagsett 5. október frá viðskiptaráðuneytinu, þar sem segir skýrt að ef þurfi muni íslensk stjórnvöld styðja tryggingarsjóðinn til þess að mæta skuldbindingum sínum. Þannig að skýrt lá fyrir að því leyti að ef um það væri sammæli beggja stjórnvalda þá yrði það gert.

Ég er svo alveg sammála hv. þingmanni um að nauðsynlegt sé að seðlabankastjóri Davíð Oddsson upplýsi hvaða upplýsingum hann býr yfir sem geta skýrt málið. Ég tel að það sé m.a. aumingjaskapur íslenskra fjölmiðla sem geri það að verkum að hann getur setið (Gripið fram í.) inni með þessar upplýsingar. Það er a.m.k. alveg víst, hv. þm. Jón Magnússon, að ef seðlabankastjóri væri undirmaður minn lægju þessar upplýsingar fyrir ef mannlegur máttur gæti dregið þær út.

Ég held hins vegar að mjög alvarlegt sé þegar seðlabankastjóri segir með þessum hætti opinberlega og þar með líka við bresk stjórnvöld að hann búi yfir upplýsingum sem enginn annar veit um sem réttlæti það sem bresk stjórnvöld gerðu. Seðlabankastjóri er í reynd að segja að bresk stjórnvöld hafi haft tilefni til að beita hermdarverkalögum. Þá ályktun dreg ég af þessu gáleysislega tali seðlabankastjóra.