136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ósköp einfaldlega ómaklegur útúrsnúningur hjá hv. þingmanni. Ég var ekki að gagnrýna að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hefðu talað eins og þau gerðu, að það kæmi ekki til greina að gefast upp í málinu og láta kúga sig. Ég var að gagnrýna uppgjöfina sem gengur þvert á þau ummæli. Ég hygg að hv. þingmaður geti lesið ræðu mína og þá sannfærist hann um að það var ekkert tilefni til þessa misskilnings eða þessa útúrsnúnings.

Að sjálfsögðu var ég sammála því og talaði þannig sjálfur sömu daga að þetta létum við ekki bjóða okkur. Það er ekki það sem ég er að gagnrýna. Á þeim tíma batt maður vonir við að menn mundu standa við það sem þeir sögðu og létu ekki bjóða sér þetta en það fór á annan veg. Það var það sem ég var að gagnrýna, hv. þingmaður, uppgjöfina, ekki hin fyrri ummæli.

Síðan má hv. þingmaður auðvitað, eins og hann hefur ítrekað reynt áður, reyna að gera lítið úr því að ég hafi t.d. reynt að rækta sambönd við fjármálaráðherra Noregs og fleiri ráðamenn, þar sem svo vill til að ég hef góð samskipti við, í því skyni að reyna að koma Íslandi þar að gagni, gera gagn fyrir þjóðina.

Hv. þm. Árni Páll má alveg rembast eins og rjúpan við staurinn það sem hann á eftir ólifað við að reyna að gera lítið úr því en það hefur engin áhrif á mig. Þegar Ísland er í vanda og þegar erfiðleikar steðja reyni ég að leggja mitt af mörkum á allan hátt sem ég get og geri það m.a. með því ef svo ber undir að nýta mér sambönd og kunningsskap við ráðamenn annarra landa. Ég hélt satt best að segja að það væri eitthvað til að tala vel um en reyna að gera lítið úr. Það kann að vera að hv. þm. Árna Páli Árnasyni sé mjög illa við það að við reyndum t.d. að nýta og virkja þá miklu velvild og þann stuðning sem var í Noregi við okkur sérstaklega framan af þegar rætt var um það þverpólitískt í norskum stjórnmálum að Noregur ætti að rétta Íslandi hjálparhönd. Það var meira að segja gagnrýnt að ríkisstjórnin skyldi ekki gera það einhliða úr því að ríkisstjórn Íslands mannaði sig ekki upp (Forseti hringir.) í að biðja um það. Er það þannig sem hv. þingmaður vill hafa það?