136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherrar brugðust auðvitað við þeirri aðstöðu sem upp var komin í samningaviðræðunum. Hv. þingmaður kallaði eftir því áðan að eðlilegt hefði verið í þessum samningaviðræðum að nýta sér þá samningsstöðu sem menn höfðu og kalla eftir því að viðsemjendur okkar tækju á árinni með okkur. Það er það sem samkomulagið sem liggur fyrir til staðfestingar felur í sér, þ.e. að tekið verði tillit til aðstæðna Íslands um lausn á þessu máli.

Hvað varðar hins vegar ummæli hv. þingmanns og mikinn reiðilestur varðandi Noregsævintýri hans verð ég að fá að bera af mér þær sakir að ég hafi með einhverjum hætti verið að reyna að gera lítið úr hagsmunavörslu á erlendri grund. Það sem ég var einfaldlega að vekja athygli á er að þingmaðurinn hefur orðið tvísaga í a.m.k. tveimur málum. Hann hefur sagt að það væri einfalt að fá fyrirgreiðslu frá Norðmönnum án aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Forsætisráðherra Noregs segir allt annað. Hann segir að það sé forsenda og nauðsynlegur hlekkur í því að Norðmenn komi að málum.

Hv. þingmaður segir að einfalt væri að taka upp norska krónu og byggir þar á samtölum við flokksbróður sinn, fjármálaráðherra Noregs. Svo þegar forsætisráðherra Noregs er spurður um málið af norska sjónvarpinu og fjármálaráðherrann, formaður systurflokks Vinstri grænna stendur við hliðina á honum, skellir fjármálaráðherrann upp úr við að heyra þessa spurningu um hvort Ísland geti tekið upp norska krónu. Svo fráleit er hún í huga fjármálaráðherra. Það var bara þessi tvöfeldni í framsetningu sem ég gerði að umtalsefni, að menn haldi að þeir geti sagt eitt til heimabrúks og annað í útlöndum. Þannig er það bara ekki. Það kemst upp um strákinn Tuma.