136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 3. minni hluta utanríkismálanefndar um að tillaga þessi gangi út á það að Alþingi veiti opna heimild til samningagerðar um ábyrgð Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu. Þriðji minni hluti fellst ekki á slíkt opið samþykki án þess að gerðar séu eftirfarandi kröfur:

a. Að áður en til samninga verður gengið aflétti Bretar beitingu hryðjuverkalaga gagnvart íslenskum aðilum.

b. Lagt verði mat á eignatapið og Bretar bæti þann skaða sem beiting hryðjuverkalaga hefur haft á verðmæti eigna þeirra aðila sem hryðjuverkalögin bitnuðu á.

c. Bretar samþykki að þær bætur gangi til þess að greiða ábyrgðir af Icesave-reikningum og leggi fram ábyrgð breska ríkisins fyrir þeim upphæðum sem tapast hafa vegna beitingar hryðjuverkalaga.

Að þessu gerðu verði gengið til samninga um ábyrgð Íslands og að verðmæti eignasölu gangi fyrst á móti ábyrgðum sem Íslendingar taka á sig. Sá samningur sem gerður verður og kveður á um fjárskuldbindingar og greiðslur Íslendinga vegna Icesave-reikninga verði lagður í heild sinni fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar.

Þriðji minni hluti mælist til þess að málinu verði breytt eða það unnið með þeim hætti að látið verði reyna á framangreind skilyrði í samningum við Breta áður en gengið verður frá endanlegu samkomulagi við þá.

Í framhaldi af því höfum við lagt fram tillögu til rökstuddrar dagskrár þar sem vísað er til þess að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá. Ég geri grein fyrir því hér aðeins síðar.

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir kveður á um það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu. Það liggur fyrir að samningar eru komnir í gang, það hefur verið unnið í þeim en þarna er spurningin um að leiða þá til lykta. Þá er spurningin: Á hvaða stigi eða hvernig kemur það síðan þá til meðferðar eða umfjöllunar Alþingis? Var e.t.v. ekki meiningin að það mundi gerast? Það er mín skoðun að samningar verði ekki leiddir til lykta öðruvísi en að Alþingi staðfesti þá á endanum hvað þetta varðar.

Ég tek undir þau sjónarmið og þær röksemdir sem komu fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í ræðu hans áðan varðandi það með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hafa haldið á því máli sem um er að ræða.

Í greinargerð með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir segir, með leyfi forseta:

„Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól.“

Áður en það kemur var sagt:

„Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum …“

Þetta var það sem ríkisstjórnin lagði af stað með varðandi þessi mál og þessa samningagerð, hún lagði að mínu viti upp með vægast sagt vafasama lögfræðilega túlkun á skuldbindingum íslenska ríkisins varðandi innstæðureikningana.

Afleiðingunum er lýst þannig í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í athugasemdum við tillöguna varðandi lagalega stöðu málsins hafa íslensk stjórnvöld byggt á því sjónarmiði að skýr lagaskylda væri ekki til staðar um ábyrgð íslenska ríkisins ef greiðslur til innlánseigenda færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir. Nefndin hefur farið yfir þau lögfræðilegu álitaefni sem málið snýst um og ljóst er að önnur aðildarríki EES-samningsins eru ekki sammála skilningi íslenskra stjórnvalda um að óvissa ríki að þessu leyti. Hugmyndir um að úr þessu yrði skorið fyrir hlutlausum úrskurðaraðila eða dómstól hafa ekki náð fram að ganga í viðræðum aðila.“

Það er ljóst að íslensk stjórnvöld töfðu allt eðlilegt samningaferli og eðlilegar viðræður og fengu í raun upp á móti sér öll ríki EES þannig að með því að hanga í vafasamri lögfræðilegri túlkun tókst íslenskum stjórnvöldum að snúa málum með þeim hætti að samúð með Íslendingum og málstað þeirra varði enginn. Þess eru í raun fá dæmi að þjóð eins og Íslendingar hafi lent í slíkum hremmingum og það verður að telja í sjálfu sér mjög sérstakt að þannig skuli hafa verið haldið á málum.

Þá komum við að þeim þætti sem lýtur sérstaklega að Bretum og var töluvert til umræðu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hér áðan, þ.e. beitingu Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart íslenskri þjóð. Bretar beittu ekki ákvæðum hryðjuverkalaganna gegn Landsbanka Íslands til að byrja með, heldur náði þetta til allra eigna, alls sem til var, eins og seðlabankastjóri upplýsti m.a. á fundi með viðskiptanefnd Alþingis í gær. Þannig var staðan. Það hefur ekki fengist haldgóð skýring frá Bretum á því hvað gat réttlætt það að hryðjuverkalögunum var beitt gagnvart Íslendingum. Seðlabankastjóri hefur ekki fengist til að upplýsa það þrátt fyrir að hafa verið ítrekað spurður um það, síðast í gær á fundi viðskiptanefndar, hvað í raun hafi valdið því að hryðjaverkalögunum var beitt af hálfu Breta. Í ræðu seðlabankastjóra nokkru áður hélt hann því fram að hann hefði vitneskju um það af hverju hryðjuverkalögunum var beitt.

Eftir því sem næst verður komist og best verður greint er engin, og var engin, forsenda fyrir því af hálfu Breta að beita Íslendinga, bandalagsþjóð sína í NATO og bandalagsþjóð sína á Evrópska efnahagssvæðinu, hryðjuverkalögunum með þeim hætti sem gert var. Okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins finnst mikilvægt og nauðsynlegt að gengið verði frá því máli og úr því skorið áður en samningar verði leiddir til lykta um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum og frá þeim gengið vegna þess að þarna er um að ræða svo mikilvægt atriði hvað það varðar.

Spurning sem hlýtur þó að vakna er þessi: Getur verið að íslensk stjórnvöld, Seðlabanki eða einstakir ráðherrar í ríkisstjórn hafi valdið því með einum eða öðrum hætti að til þessara aðgerða var gripið af hálfu breskra stjórnvalda? Slík skýring verður þá að koma fram af þeirra hálfu en þó að reynt verði að skýra það með einhverjum hætti liggur samt ekkert fyrir sem réttlætt getur að hryðjuverkalögunum var beitt eða að þeim sé viðhaldið. Meðan ein þjóð beitir slíkum afarkostum verður ekki um það að ræða að unnt verði að ganga til eðlilegra samninga við þau skilyrði. Eins og bent var á áðan yrðu það þá nauðungasamningar og ekki verður á það fallist að það væri eðlilegt að hafa þann hátt á að ganga frá málum undir þeim skilyrðum og því oki.

Það hefur verið mjög á reiki, virðulegi forseti, um hvaða skuldbindingar verið væri að semja, hvað í raun væri um að ræða. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, gat þess í ræðu sinni áðan að svo gæti farið að ábyrgðin sem félli á Íslendinga vegna innstæðutrygginganna næmi hugsanlega 150 milljörðum kr. en sagði líka að hugsanlega gæti farið svo að ekki yrði um neinar skuldbindingar að ræða, ábyrgð Íslendinga vegna innstæðutrygginganna gæti þess vegna verið að íslenska ríkið þyrfti ekki að greiða eitt eða neitt. Miðað við þau orð hv. formanns utanríkismálanefndar hlýtur maður að velta fyrir sér hvernig á því gat staðið að íslenska ríkisstjórnin, sem hefði átt og átti að vita hvernig málum væri komið og um hvaða skuldbindingar gæti verið að ræða varðandi þessa innstæðureikninga, hætti. Hún fór út í það að kalla yfir sig reiði allra bandalagsþjóða okkar á Evrópska efnahagssvæðinu og annarra þjóða sem skipta okkur máli með þeim þvergirðingshætti sem ég rakti að hefði verið hafður í frammi af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi það að vísa stöðugt til ákveðinnar lagalegrar túlkunar á innstæðutryggingum miðað við þann tryggingarsjóð sem átti að koma upp.

Það er náttúrlega með ólíkindum ef það er hugsanleg niðurstaða að ábyrgð okkar sé í raun engin samkvæmt þeim innstæðutryggingum sem hér er um að ræða. Í sjálfu sér er hægt að skilja að þegar um er að ræða eignir banka sé spurningin hversu mikið fæst fyrir þær. Hætt er við að verðmæti þeirra rýrni þeim mun lengur sem dregst að tryggja eignirnar án þess að ráðstafanir séu gerðar. Þar af leiðandi gæti mikilvægur tími og peningar hafa glatast vegna þeirrar glapræðisferðar sem íslensk stjórnvöld hafa farið í varðandi þessi mál. Þá hlýtur maður að spyrja: Getur verið að miðað við þær upplýsingar sem verið er að gefa í dag gætu skuldbindingar Íslands og ábyrgð íslensks ríkissjóðs orðið 150 milljarðar eða jafnvel engar? Ef gengið hefði verið í málin af festu strax hefði verið alveg ljóst að ábyrgð Íslendinga hefði engin orðið, ef menn hefðu ekki farið í þá vonlitlu eða vonlausu vegferð sem íslensk stjórnvöld fóru í upphafi þessa máls í viðskiptum sínum við Evrópuríkin.

Þó að full ástæða og full þörf sé til að ná samningum við bandalags- og vinaþjóðir okkar stendur samt sem áður eftir eitt atriði, það að sú ein þjóð sem þarna kemur að málum, og það verulega, hefur beitt okkur afarkostum, beitt okkur hryðjuverkalögum og meðan svo er er ekki unnt að fara í samninga nema gegn þeim skilyrðum sem ég rakti áðan í nefndaráliti 3. minni hluta.

Þar af leiðandi er gerð tillaga um rökstudda dagskrá svohljóðandi:

„Með vísan til þess sem kemur fram í nefndaráliti 3. minni hluta utanríkismálanefndar er lagt til að Alþingi hafni því að svo stöddu að veita opna heimild til samningagerðar um ábyrgð Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu án þess að gerðar séu eftirfarandi kröfur:

a. Að áður en til samninga verður gengið aflétti Bretar beitingu hryðjuverkalaga gagnvart íslenskum aðilum.

b. Lagt verði mat á eignatapið og Bretar bæti þann skaða sem beiting hryðjuverkalaga hefur haft á verðmæti eigna þeirra aðila sem hryðjuverkalögin bitnuðu á.

c. Bretar samþykki að þær bætur gangi til þess að greiða ábyrgðir af Icesave-reikningum og leggi fram ábyrgð breska ríkisins fyrir þeim upphæðum sem tapast hafa vegna beitingar hryðjuverkalaga.

Í ljósi þessa samþykkir Alþingi að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu og fela ríkisstjórninni að látið verði reyna á framangreind skilyrði í samningum við Breta áður en gengið verður frá endanlegu samkomulagi við þá og málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, aðeins víkja að þeim umræðum sem urðu hér áðan milli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Árna Páls Árnasonar vegna hugmynda og aðgerða í sambandi við það að koma hugsanlega betri stjórn á íslensku gjaldeyrismálin sem bæði ég og hv. þm. Árni Páll Árnason erum gjörsamlega sammála um að brýna nauðsyn beri til að gera. Ég get ekki fallist á það að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi farið fram með óeðlilegum hætti þegar hann leitaði eftir því hvort möguleiki væri á því að tengjast öðrum gjaldmiðli. Ég legg á það mikla áherslu að það skiptir máli fyrir okkur í þessu minnsta myntkerfi í heimi að við getum horfið frá því að vera með íslenska krónu á floti en getum tengst öðrum gjaldmiðli, hvort heldur það er norska krónan eða önnur alvörumynt, til þess að eyða þeim óstöðugleika og erfiðleikum sem við eigum við að stríða og sem íslenskt viðskiptalíf kemur til með að eiga við að stríða og íslensk heimili með því að hafa kerfið með þeim hætti sem við höfum.

Að búa við óréttláta verðtryggingu er óásættanlegt, að búa við það að heimilin í landinu þurfi að verða jafnvel gjaldþrota eða lenda í gríðarlegum greiðsluerfiðleikum af því að við getum ekki boðið venjulegu fólki upp á eðlileg lánakjör, upp á þau lánakjör sem bjóðast hvar sem er annars staðar í okkar heimshluta er óásættanlegt. Þegar við erum komin út í það samevrópska umhverfi sem við búum við í dag er það skylda okkar að geta búið borgurum okkar eðlilegt umhverfi, það sé sambærilegt við það sem gerist annars staðar í okkar heimshluta. Ef við gerum það ekki missum við eðlilega besta fólkið úr landinu, það er nú bara þannig, og það eru þeir alvarlegustu hlutir sem við horfumst í augu við. Einn versti óvinur stöðugleika og afkomu heimilanna er að hafa ekki gjaldmiðil sem hægt er að treysta í skammtíma- og langtímaviðskiptum. Það verður aldrei stöðugleiki í þessu landi meðan við höfum ekki slíkan gjaldmiðil, það er í raun forsenda framþróunar í landinu að við náum þeirri skipan.

Ég hef flutt þingsályktunartillögu ásamt tveimur öðrum þingmönnum Frjálslynda flokksins, þeim Grétari Mar Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, um að skoða beri þessi mál sérstaklega með hugsanlegum viðræðum við norsk stjórnvöld svo og við önnur stjórnvöld varðandi það að koma betri skipan á gjaldmiðilsmál okkar og tengjast öðrum gjaldmiðli.

Þetta var ákveðinn útúrdúr, virðulegi forseti, sem ég biðst velvirðingar á. Ég ítreka þau sjónarmið sem ég hef gert hér að umtalsefni og varðandi þá rökstuddu dagskrártillögu sem hér var flutt fram.