136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti svolítið athyglisvert að hlusta á hv. þm. Árna Pál Árnason. Tökum sem dæmi að hv. þingmaður mundi keyra um á 190 km hraða, klessir á, stígur að vísu út úr bílnum lifandi og svo sparkar hann í bílinn — þetta er meiri druslan, allt bílnum að kenna. Er ekki svolítið svipað það sem verið er að gera núna varðandi starfsmenn Landsbankans? Við vorum að segja að þetta væri allt þeim að kenna, yfirmönnum og starfsmönnum Landsbankans.

Ég man ekki betur en nánast allt sem ég sá skrifað um Landsbankann segði að staða bankans væri mjög góð. Bankinn var talinn traustastur af þeim bönkum sem við áttum á Íslandi. Það liggja meira að segja fyrir plögg frá Fjármálaeftirlitinu þar sem einmitt er talað um hvað staða bankans sé sterk. Ég sjálf átti síðan samtal við starfsmann Glitnis viku áður en bankarnir fóru á hausinn þar sem starfsmaður Glitnis viðurkenndi að væntanlega væru minnstar líkur á því að Landsbanki Íslands mundi fara á hausinn af því að hann væri svo vel rekinn.

Mér finnst líka mjög einkennilegt að heyra frá hv. þingmanni að hann talar svona um starfsmenn bankans en samt sem áður er núverandi bankastjóri hins nýja Landsbanka fyrrum stjórnandi í gamla Landsbanka. Það þótti eðlilegt og í lagi. Sú aðgerð var samþykkt af kannski mestu klappstýru allrar fjármálavitleysunnar, hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðssyni. Hann klappaði svo mikið fyrir þessu að vefsíðan hans varð bara að týnast. Mér finnst því mjög einkennileg þessi umræða um að sumir eigi að bera ábyrgð en greinilega ekki allir.