136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ég verði að leiðrétta hv. þm. Árna Pál Árnason. Ég man ekki betur en það hafi einmitt verið þannig að þegar talað var um þungt álag á bönkunum hafi Landsbankinn komið almennt best út úr því en Kaupþing verst, vegna þess að það hafi verið meiri áhætta að fjárfesta í Kaupþingi en Landsbankanum.

Ég vil líka taka upp punkta sem hv. þingmaður nefndi í lok ræðu sinnar þar sem hann talaði um breytingartillögu sem hefur komið fram frá Vinstri grænum. Mér líst ágætlega á þá tillögu vegna þess að mér finnst það skipta mjög miklu máli að við komum ekki algerlega á hnjánum inn í þessa samninga, að það komi fram að við gerum þessa kröfu og viljum losna við þessi lög. Lögin eru fáránleg og mjög ósanngjörn og það hlýtur að vera ein af grundvallarkröfunum sem koma frá Alþingi Íslendinga að hryðjuverkalögum sé ekki beitt gagnvart þjóð sem er ekki einu sinni með her. Ég held að við öll sem búum á Íslandi höfum ekki vitað hvað var í gangi þegar þetta gerðist.

Mér finnst ástæða til að hv. þingmaður svari af hverju hann telji svo slæmt að setja þetta inn, hvort ekki sé eðlilegt að Alþingi setji sín fingraför á þessa tillögu.