136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að hryðjuverkalögin viljum við burt en eins og ég rakti í ræðu minni áðan er mjög misráðið að tengja þetta tvennt saman eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur dottið í svolítið fúlan pytt með í þessu máli. Það er mjög misráðið að tengja saman beitingu hryðjuverkalaganna annars vegar og lausn þessa máls hins vegar því þá bjóðum við heim þeirri hættu að viðsemjandi krefji okkur á móti um að falla frá fyrirvara um að bera hryðjuverkalögin fyrir dómstóla og þar held ég að sé okkar stærsti möguleiki. Við eigum að halda þeim rétti okkar til haga og við eigum að halda hryðjuverkalögunum utan við þetta ferli. Við höfum mótmælt þeim kröftuglega og við eigum að gera það enn betur og gera allt sem við getum til að sækja rétt okkar á hendur Bretum. (AtlG: Það er búið að falla frá þeim rétti.) Að sækja beitingu hryðjuverkalaganna gegn Bretum, (Gripið fram í.) hvernig hefur það verið gert, hv. þingmaður? Það hefur aldrei verið fallið frá þeim rétti, þetta eru hrein ósannindi og þvættingur, það hefur aldrei verið fallið frá rétti íslenskra stjórnvalda til þess að bera beitingu hryðjuverkalaganna undir dómstóla, það hefur aldrei verið gert. Þetta er hreinn þvættingur og staðleysa sem hv. þm. Atli Gíslason kemur hér fram með.

Hins vegar skorti svolítið í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að hann kæmi fram með aðrar lausnir. Það er það sem mestu máli skiptir, því hvernig hefði að öðrum kosti átt að halda á þessu máli? Það liggur fyrir að viðsemjandinn lítur svo á — og ekki bara einn viðsemjandi, hv. þingmaður, heldur Evrópusambandsríkin, EES-ríkin og vinir okkar í Noregi líka — að í afstöðu Íslands felist að Ísland sé að víkja sér undan ábyrgð á því að hafa með réttum hætti (Forseti hringir.) leitt í lög þessa tilskipun.