136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný heyrum við þessi frægu orð „ekki ég, ekki ég“. Hv. þingmaður talar um að ábyrgðin á þessu öllu saman sé Breta, nú kennum við þeim um, það er allt þeim að kenna. Þetta horfði maður upp á fyrir stuttu síðan hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni en þá vildi hann kenna starfsmönnum Landsbankans um þetta allt saman. Það virðist vera algjörlega á hreinu að núverandi ríkisstjórn telji að hún beri enga ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum komin í, enga.

Ég vil samt minna á að það hafa náttúrlega verið lögð fram gögn og það hefur birst í fjölmiðlum útskrift á samtali sem fór fram milli Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Bretlands, og Árna Mathiesens, hæstv. fjármálaráðherra Íslands, þar sem hann raunar, að ég tel, orsakar nánast það sem gerist síðan í framhaldinu, þar sem hann segir hreint og klárt í því viðtali að hann ætli sér að mismuna milli fólks sem býr á Íslandi og þeirra sem búa í löndum Evrópusambandsins.

Það er þannig að í Evrópusambandinu og með EES-samningum þegar við skrifum undir hann, þá erum við í rauninni að samþykkja að við ætlum okkur ekki að mismuna fólki. Þannig fær fólk sem kemur til Íslands sömu laun og íslenskir ríkisborgarar. Í umræddu samtali var fjármálaráðherra okkar beinlínis að segja að hann ætlaði sér að mismuna erlendum ríkisborgurum. Ekki bætti síðan úr skák það viðtal þar sem einn æðsti embættismaður þjóðarinnar kom og tilkynnti í beinni útsendingu að hann hygðist ekki borga skuldir óreiðumanna.

Ég held því að núverandi ríkisstjórn eða þeir þingmenn sem styðja ríkisstjórnina geti ekki (Forseti hringir.) fríað sig algjörlega ábyrgð.