136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef setið á Alþingi hef ég einmitt talað mjög mikið fyrir því hvað það skiptir miklu máli að við förum af stað og öflum okkur tekna þegar þarf að borga allar þær skuldir sem við erum að taka á okkur. Þess vegna finnst mér alveg ástæða til að spyrja, þegar hv. þingmaður nefnir mikilvægi þess að styðja við atvinnulífið, hvort hún hyggist vinna í því og aðstoða við að sjá til þess að ríkisstjórnin muni virkilega styðja við uppbyggingu og stækkun á þeim álverum sem eru í bígerð. Mun hún styðja við það að núverandi ríkisstjórn komi hugsanlega til aðstoðar eða ábyrgist lán til orkufyrirtækjanna þannig að þau geti farið í að virkja og tryggja rafmagn til framkvæmda? Mun hún vinna í því að t.d. umhverfismat verði auðveldað?

Ég vil líka nefna sem dæmi að það sló mig mjög þegar ég var að skoða fjárlagafrumvarpið, sem sumir segja að vísu að sé ekki pappírsins virði, en í drögunum að frumvarpinu sem var lagt fram hér á Alþingi kom fram að núverandi ríkisstjórn eða fjármálaráðherra hygðist setja 20 milljónir í Fjárfestingarstofu. Tveimur línum neðar stóð að 60 milljónir ættu að fara í Staðlaráð. En það er einmitt Fjárfestingarstofan sem hefur borið hitann og þungann af því að tryggja erlenda fjárfestingu, að það verði uppbygging í atvinnulífinu og að hægt sé að tryggja þann útflutning sem hv. þingmaður ræddi um.