136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég orðaði þessa von mína svona er kannski sú að mér hefur fundist svolítið einkennilegt að hlusta á hv. þingmenn í kvöld, sérstaklega á hv. þm. Árna Pál Árnason þar sem hann virðist vera mjög hræddur við að gera þá breytingu á þingsályktunartillögunni sem lögð hefur verið til af 2. minni hluta utanríkismálanefndar, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að þar verði bætt við, með leyfi forseta:

„… þegar Bretar hafa aflétt frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi samkvæmt ákvæðum hryðjuverkalaga.“

Við þurfum náttúrlega að fá aðgang að þessum eignum. Í augnablikinu höfum við ekki aðgang að þeim. Þetta virðist vera svo stórhættulegt og Bretar svo ósveigjanlegir og erfiðir og við kannski svona hrædd við þá að við getum ekki einu sinni sett inn þessa litlu breytingu og sanngjörnu kröfu að frystingunni verði aflétt og við sem eigendur, íslenska ríkið, fáum aðgang að þessum eignum og getum tryggt að við náum upp í þessa óhugnanlega stóru tölu sem verið er að tala um hér. Ég skal svo sannarlega taka undir það að það væri ofsalega gaman ef við fengjum 300–400 milljarða sem við gætum þá vonandi notað til að borga niður lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.