136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EFS-svæðinu.

177. mál
[19:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Þetta er afar dapurlegur dagur eins og hér hefur komið fram. Tala má um að við séum hér að kistuleggja fullveldi okkar. Segja má að það sama gildi um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. En það er algerlega ljóst fyrir alla sem reyna að átta sig á þeim tölum sem um er að ræða, sem upplýsingar skortir þó verulega um, að ef maður leggst í þetta og reynir að finna út þær tölur sem hér eru á ferðinni, bæði vaxtakostnað og aðrar skuldbindingar, þá erum við að reisa okkur fjárhagslegan hurðarás um öxl og við erum að leggja óbærilegar fjárhagslegar byrðar á börn okkar og barnabörn.

Í dag erum við líka að husla utan garðs peningamálastefnu og efnahagsstefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins allt frá árinu 1991, fyrst með Alþýðuflokknum, síðan með Framsóknarflokknum og loks nú með Samfylkingunni. Mér eru afar minnisstæð ummæli sem hv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, viðhafði í upphafi stjórnarferils síns þegar upp komu vandkvæði að mig minnir á Súgandafirði. Hann sagði: „Í minni ríkisstjórnartíð verða engir ríkisstyrkir. Það verða engir byggðastyrkir. Það verður engin slík aðstoð.“ Markaðurinn átti að sjá um það allt.

Hvað nú? Hvað erum við nú að gera? Við erum að taka á okkur ábyrgð og við erum beinlínis að „styrkja“ auðmennina og bankana sem leikið hafa okkur jafngrátt og raun ber vitni. Þjóðinni er gert að taka ábyrgð á og greiða fyrir græðgina. Það er óþolandi. Við erum að greiða fyrir einkaþoturnar sem trufluðu stundum starfsfrið á Alþingi þegar þær flugu hér yfir. Við erum að greiða fyrir stórhýsin hér heima og erlendis, fyrir einkasnekkjurnar, fyrir fáheyrt bruðl sem hefur viðgengist frá því að bankarnir voru einkavæddir. Afmælisboð með Elton John upp á tugi milljóna o.s.frv., þetta er verið að leggja á þjóðina í dag. Það er þessi samanburður og það er þetta samhengi sem verður að skoða.

Ríkisstjórnin einkavæddi frelsið en svo er komið í ljós að ábyrgðin fylgdi ekki með. Ábyrgðin var ekki einkavædd í leiðinni og nú erum við að þjóðnýta bruðlið og varpa því yfir á Íslendinga sem engan þátt eiga í og enga ábyrgð bera á málinu. Það er rangt að segja að Íslendingar beri ábyrgð á þessu. Það er minni hluti þjóðarinnar, lítill minni hluti þjóðarinnar, sem ber ábyrgð á þessu ástandi, þessu efnahagshruni, og ríkisstjórnir og Seðlabankinn og eftirlitsstofnanir.

Ekki er hægt að ræða þessa stöðu hér í dag án þess að rifja upp söguna frá fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Leiðarljós þeirrar ríkisstjórnar var eftirlitslaus markaðs- og einkavæðing sem öll vandamál átti að leysa, jafnt á sjúkrahúsum, í skólum og í fyrirtækjum, bönkum og annars staðar.

Fyrstu skrefin voru fljótlega stigin: Póstur og sími, orkuveitur, með tilheyrandi hækkun á raforkuverði, o.s.frv. Síðan voru bankarnir seldir á silfurfati og þá hófst útrás og skuldsetning hratt vaxandi í bóluviðskiptum þar sem ekki var atvinna að baki viðskiptunum, þar sem fjármagn var að baki fjármagni og búin var til spilaborg og rúlletta. Mörg aðvörunarljós blikkuðu allan tímann og meira að segja í ársbyrjun 2006 vöruðu erlendar greiningardeildir mjög ákveðið við ástandinu. Þá lagðist Fjármálaeftirlitið í vinnu í heilt ár og fékk aukafjárveitingu í að segja að erlendir sérfræðingar skildu ekki íslenska módelið. Ég spyr: Er von að þeir hafi ekki skilið það, þetta loftbólukerfi?

Það sem verra var; á þessum feitu góðærisárum auðmannanna fengu þeir skattalækkanir í kaupbæti sem eru að koma velferðarkerfinu og viðbrögðum við hruninu í koll. Það er að gerast. Þeir fengu skattalækkanir í kaupbæti en nú er komið fram, sem margsinnis hefur verið lýst hér af stjórnarandstöðu á þingi, að almenningur þurfti að þola skattahækkanir.

Í nýrri skýrslu fjármálaráðuneytisins er því lýst að persónuafsláttur hafi ekki fylgt verðlagsþróun, að barnabætur hafi ekki fylgt verðlagsþróun, vaxtabætur o.s.frv. þannig að skattbyrði almennings, meiri hluta Íslendinga, hækkaði. Maður spyr: Hvað vissu menn? Engu að síður máttu menn vita með því að afla sér vitneskju.

Ég fullyrði að með eftirgrennslan og aðgætni mátti ríkisstjórnin, eftirlitsstofnanir og aðrir, í síðasta lagi haustið 2007, vita hvert stefndi. Þeir máttu vita það með aðgæslu og fagmönnum. Bankarnir vissu hvert stefndi haustið 2007. Hvað gerðu þeir haustið 2007? Kaupþing byrjaði að hamstra gjaldeyri. Glitnir fylgdi í kjölfarið í október og nóvember að hamstra gjaldeyri og síðan Landsbankinn í janúar og febrúar. Hvað gerðu bankarnir? Þeir tóku fjandsamlega afstöðu gegn krónunni og svo er krónan töluð niður en ekki bankarnir. Þeir tóku fjandsamlega afstöðu gegn krónunni vegna þess að þeir sáu fyrir gengisfall á vormánuðum eða fyrstu mánuðum ársins 2008.

Þegar þeir voru búnir að koma sér fyrir í þeirri stöðu að þeir áttu meira í gjaldeyri en íslenskum krónum féll gengið. Það hófst í mars síðastliðnum. Aðvörunarorð okkar um skuldsetningu þjóðarbúsins, voru hunsuð. Beinharðar tillögur í þá veru að reyna að efla gjaldeyrisforðann, að aðskilja bankana, þ.e. fjárfestingarstarfsemi og aðra viðskiptastarfsemi, voru allar hunsaðar. Afneitunin var algjör þó að menn hafi mátt vita betur. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði í maí að botninum væri náð og hæstv. menntamálaráðherra sagði í júlí breskan sérfræðing þurfa að fara í endurmenntun. Hún hefur dregið þau orð til baka hér í ræðustól þingsins og sagt að hún þurfi að biðjast afsökunar á þeim.

Bankarnir vissu meira en þetta. Þeir vissu það í apríl í síðasta lagi, þegar Landsbankinn fékk skýrslu um Icesave-reikningana, að eftir það tímamark voru þeir glæpsamlegir. Samt var haldið áfram. Svo kom hrunið og þá var þjóðstjórn afþökkuð og síðan hefur hlutum verið klúðrað allrækilega.

Það er rétt að halda því til haga að á fundi hæstv. fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesens, í Evrópu 4. nóvember fékk hann afar kaldar móttökur þannig að gera varð hlé á fundi vegna ofurkrafna fjármálaráðherra Evrópuríkja. Sett var á stofn fimm manna nefnd sem átti að miðla málum. Málamiðlanir og tillögur þessarar fimm manna nefndar voru taldar algerlega óaðgengilegar fyrir Ísland. Því lýsti hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, yfir 13. nóvember 2008 og hæstv. forsætisráðherra tók undir þau ummæli að þessi skilyrði væru óaðgengileg. Hvað breyttist síðan í millitíðinni? Af hverju gekk ríkisstjórnin að kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tók upp ábyrgð á Icesave-reikningunum?

Það er vitað að fulltrúar nefndra ríkja, Bretlands, Þýskalands, Hollands, Frakklands og Austurríkis, með Evrópusambandið, óskabarn Samfylkingarinnar, í fararbroddi, gerðu þá ósvífnu kröfu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að gera Icesave-ábyrgðina að skilyrði. Það er ósvífið í alþjóðasamskiptum og það er undarlegt til þess að vita að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem við höfum átt aðild að í sextíu ár, skuli setja slík óviðkomandi skilyrði. Og hvað hékk þá meira á spýtunni? Jú, það kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að önnur hótun hékk á spýtunni, þ.e. að Evrópska efnahagssvæðið yrði í uppnámi ef við gengjum ekki að þessum samningum.

Þetta eru ótrúlega ósvífnar hótanir. Það er með ólíkindum að við skulum standa hér frammi fyrir því verkefni að vera að samþykkja, herra forseti, þingsályktunartillögu sem byggist á þessum þvingunum. Það er enn þá ótrúlegra að spilin hafi ekki verið lögð á borðið og almenningi gefnar upplýsingar hér um. Af hverju var ekki fallið frá beitingu hryðjuverkalaga? Af hverju var ekki lögð fram fundargerð fjármálaráðherra með Evrópuríkjunum? Af hverju var ekki lögð fram yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra í New York um ábyrgð á hollensku reikningunum? Af hverju gefur ríkisstjórnin ekki neitt fyrir skoðanir fræðimanna og ríkisendurskoðanda? Í skýrslu ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2007 segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Fella ætti Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta úr D-hluta ríkissjóðs. Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.“

Síðan segir, með leyfi herra forseta:

„Að mati stofnunarinnar eru ekki lagalegar forsendur fyrir birtingu sjóðsins í ríkisreikningi enda getur hann með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.“

Ríkið ber enga ábyrgð. Fyrir því standa síðan lögfræðileg álit sem fylgja minnihlutaáliti okkar. Þessar upplýsingar áttu eðlilega allar að liggja fyrir til að unnt væri að taka faglega afstöðu til málsins. Fyrir átti að liggja fagleg nálgun fræðimanna, hagfræðinga, tölfræðinga og annarra, fræðileg nálgun með sem minnstri ónákvæmni, plús eða mínus 10%, á því hvað við erum að taka á okkur af skuldum, á því hver vaxtakostnaður þjóðarbúsins verður á næstu árum o.s.frv. Ríkisstjórnin átti að fara í að semja við bresk yfirvöld um Icesave-reikningana án þessarar þingsályktunartillögu og gera samninga með fyrirvara um samþykki Alþingis. Ekki að fara út með opinn tékka á bilinu 200 til 800 milljarða plús vaxtakostnað. Það er það sem við erum að semja um hér í dag, opinn tékka. Það er algerlega óþolandi.

Svo er hér sagt að ekki megi birta þessi trúnaðargögn vegna þess að það skaði samningsstöðu íslenska ríkisins. Gildir það um öll gögn málsins? Ég segi nei. Það þarf að rökstyðja það hvert fyrir sig. Það kunna að vera einhver slík gögn en alls ekki öll gögn málsins. Og hvernig getur yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra við Hollendinga í New York, sem búið er að undirrita og ganga frá, yfirlýsing sem er búið að semja um og staðfesta, hvernig getur hún skaðað samningsstöðu íslenska ríkisins? Gerður hlutur. Er það eitthvert leyndarmál ef búið er að semja við Hollendinga?

Á fullveldisdaginn 1. desember flutti Björg Thorarensen, forseti lagadeildar, afar merkilegt erindi á ráðstefnu í Háskóla Íslands sem Alþjóðamálastofnun og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir. Hún sagði þar m.a. að smáþjóð í kreppu megi sín lítils og hún segir að beiting hryðjuverkalaganna gegn Íslandi eigi sér enga lagastoð, þ.e. uppspretta hryðjuverkalaganna er í hryðjuverkunum 11. september. Okkur er stillt upp við hliðina á al Kaída. Okkur er stillt upp. Erum við hryðjuverkamenn? Nei. Við upplifum hér á hverjum laugardegi friðsöm mótmæli, lýðræðisleg friðsöm mótmæli. Hvar er ofbeldið? Hvar eru hryðjuverkin? Auðvitað engin. Íslendingar eru friðelskandi þjóð. Þessu er beitt gegn okkur og þetta er vinaþjóð okkar í NATO. Er ekki beiting hryðjuverkalaganna gagnvart Íslandi árás á íslenska ríkið? Jú. Hvað þýðir það? Árás á eitt NATO-ríki er árás á öll NATO-ríkin. Það er einfalt. Hvar eru hin NATO-ríkin þegar Bretar ráðast með þessum hætti á okkur?

Þeir hafa að vísu gert það áður í landhelgisdeilum. Þá stóð íslenska ríkisstjórnin í fæturna og þjóðin einhuga að baki henni. En í dag ef við hefðum tekið slaginn við Breta stæði samhuga þjóð með ríkisstjórninni og mundi styðja hana í þessu í einu og öllu.

Björg Thorarensen lýsti því svo í erindi sínu að tilskipunin um innstæðurnar, herra forseti, gæti ekki gert aðildarríki, ríkisstjórnir, ábyrgar fyrir innstæðum. Til þess var þessi tilskipun innleidd. Við gerðum allt rétt gagnvart Evrópubandalagsskuldbindingum, allt rétt. Engu að síður erum við þvinguð. Um það segir Björg Thorarensen síðan orðrétt, með leyfi herra forseta.

„ESB-ríkin voru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið valdið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir ríkisábyrgð á bankainnstæðum.“

Síðar segir hún, og heldur því fram að það hafi engin lagaleg skylda borið til að taka þessa ábyrgð, orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarlegum reglum. … Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum. Og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.“

Svo mörg voru þau orð.

Við erum að samþykkja þingsályktunartillögu þar sem snúið hefur verið upp á handlegginn á íslensku þjóðinni og okkur er enn haldið í heljargreipum hryðjuverkalaganna. Er þetta boðlegt? Er boðlegt að Alþingi Íslands bjóði þjóðinni upp á svona þingsályktun? Ég segi: Nei, það er algerlega óboðlegt. Það stríðir gegn siðferðiskennd minni, réttlætiskennd og öllu því sem ég hef verið alinn upp við. Þess vegna er þetta dapur dagur.

Við erum að fara finnsku leiðina. Hver er hugsunin í öllu þessu Alþjóðagjaldeyrissjóðsdæmi og þingsályktun um ábyrgð á Icesave-reikningum? Jú, það er að bjarga bönkunum. Ef maður les yfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá er aftur og aftur talað um bankana. Hvar er talað þar um þjóðina, heimilin í landinu, atvinnureksturinn? Jú, það er lagt til þeirra með því að setja 18% stýrivexti sem drepur alla heilbrigða atvinnustarfsemi og útilokar nýsköpun, þróun og þar fram eftir götunum.

Finnar fóru í gegnum þetta í tvö ár þangað til þeir áttuðu sig á því: Við skulum bjarga heimilum. Við skulum bjarga fólkinu og við skulum bjarga atvinnurekstrinum. Hvað þarf íslenska ríkisstjórnin mörg ár til að skilja þetta? Það voru að vísu kosningar á milli í Finnlandi. Við erum að taka á okkur fleiri hundruð milljarða til að bjarga bankakerfinu. Hvar eru tillögurnar fyrir fólkið? Hvað gætum við ekki gert, ég í mínu kjördæmi, eða þið, hv. þingmenn, í ykkar kjördæmum, fyrir 100 milljarða í atvinnusköpun? Nú er ekkert til lengur vegna þess að skerða á ríkisfjárframlög. Það á að skerða framlög sveitarfélaganna. Það á að skerða kjarasamninga. Við höfum engin úrræði.

Ég fór á kjördæmadögum, 20.–22. október, um kjördæmi mitt. Við töluðum við 23 sveitarstjórnir í þessu kjördæmi. Allar voru þær með 10–20 tillögur um atvinnusköpun. Ég er því afar bjartsýnn á að þessi þjóð vinni sig út úr erfiðleikum sínum ef hún fer ekki þessa leið. Af hverju var núllkosturinn, sem ég tala svo um, ekki skoðaður? Þ.e. að taka engin lán. Ég hef rætt við útgerðaraðila og fleiri. Þeir telja að við mundum eiga erfitt í 2–4 ár en ekki 20 ár eins og hér er talað um.