136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:42]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að bregðast almennt við ræðu hv. þingmanns en mér heyrðist hann segja að í tengslum við Súðavíkurmálið hefði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sagt að frelsið ætti að ráða og ekki ætti að líða neina byggðastyrki.

Ef ég heyrði rétt þá vil ég leiðrétta þetta. Þó að Davíð Oddsson sé nú ekki vinsælasti maðurinn í landinu finnst mér að hann eigi að njóta sannmælis. Sannleikurinn er sá að það var ekki síst fyrir hans ákvörðun sem ákveðið var og sem uppbygging fór fram eftir þá hörmulegu atburði sem áttu sér stað í Súðavík. Ég vildi að þetta kæmi fram. Ég veit ekki hvort ég heyrði rétt en mér heyrðist hv. þingmaður tala um þetta með þeim hætti sem ég fór hér yfir.