136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er flutt varatillaga í ljósi þess að Alþingi hefur ekki fallist á að vísa málinu frá með þeim rökstuðningi sem fluttur var hér áðan. Hún gengur út á það að gildistaka samningsumboðs ríkisstjórnarinnar verði þó skilyrt þannig að ekki verði gengið til samninga fyrr en Bretar hafa aflétt frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi samkvæmt ákvæðum hryðjuverkalaga.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er dapurlegt ef það ætlar að verða raunin að ekki einu sinni þetta treysti Alþingi Íslendinga sér til að segja í málinu heldur fela ríkisstjórninni galopið samningsumboð í þessu örlagamáli og það undir gildandi hryðjuverkalögum þannig að lítill gerist nú metnaður manna, verð ég að segja, að ætla sér að lötra þessa götu með þessum hætti og hafandi hryðjuverkalög á landið í fullu gildi og allt í óvissu um það hvenær þau verða þá yfirleitt felld niður.