136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða um þingsályktunartillögu þar sem farið er fram á pólitískan stuðning við það ferli sem málið hefur verið fellt í af hálfu stjórnvalda. Fyrir liggur að þær viðræður sem í hönd fara og eru reyndar þegar komnar af stað byggja á ákveðnum sameiginlegum viðmiðum um það að hverju skuli stefnt. Málið hefur verið fellt í farveg pólitískrar lausnar.

Þegar stjórnvöld leggja fyrir þingið tillögu með þessum hætti og óska pólitísks stuðnings er það auðvitað afar einkennilegt ef málið á þá að enda með því að umboðið sé þynnt út og í raun settur fyrirvari á þá samninga sem af stað eru farnir, en augljóst er að stjórnvöld hafa á grundvelli almennra reglna heimild til þess að ganga til samninga af því tagi sem hér er um rætt. Hér er einungis verið að kanna pólitískan (Forseti hringir.) stuðning við málið á þeim forsendum sem kynntar eru í þingsályktunartillögunni. Ég tel óskynsamlegt að gera þennan viðbótaráskilnað (Forseti hringir.) og segi þess vegna nei. (Gripið fram í.)