136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér það að hv. þingmenn leggi mér orð í munn. Það er ekki þannig að hér sé verið að óska eftir pólitískri blessun á neins konar uppgjöf í þessu máli. Þvert á móti hefur verið lagt fyrir þingið með mjög skýrum hætti á hvaða forsendum íslensk stjórnvöld hyggjast leita pólitískrar lausnar á þeim ágreiningi sem hefur verið uppi við önnur ríki vegna innstæðna íslenskra banka þar í landi. Viðmiðin eru klár. Samningsmarkmiðin hafa verið kynnt fyrir þinginu. Það liggur jafnframt fyrir að utanríkismálanefnd þingsins verður haldið upplýstri um framvindu samninganna. Umboðið er afmarkað. Það er algjörlega skýrt. Það er skynsamlegt. Það er á skynsamlegum forsendum sem farið er til þessara viðræðna. Engar efnislegar athugasemdir hafa komið fram um helstu samningsmarkmiðin sem kynnt voru í nefndarstarfinu þannig að það er ástæðulaus ótti sem þingmenn koma fram með hér við að styðja þann farveg sem málið hefur verið fellt í. (Forseti hringir.) Ég tel þvert á móti að það hafi verið skynsamlegt að fella málið í þennan farveg og það er rétt að styðja málið. (Gripið fram í.)