136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

Icesave-reikningar í Bretlandi.

[15:07]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í fréttum Stöðvar 2 27. október kom fram að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi komið með yfirlýsingu þar sem hann segir að bankastjórn Seðlabankans hafi verið kunnugt um boð breska fjármálaeftirlitsins um flýtimeðferð vegna Icesave-ábyrgðanna og ráðherrum í ríkisstjórn Íslands, sem helst hafa farið með þau mál, hafi verið kunnugt um þetta tilboð breska eftirlitsins (Gripið fram í: Það var …) og Seðlabankanum líka. Ég vil af þessu tilefni, virðulegi forseti, spyrja hæstv. fjármálaráðherra í tilefni af svari sem hann gaf og kom til þingsins síðasta föstudag, og vil reyndar taka fram að hæstv. ráðherra sem hefur 10 virka daga til að svara tók sér a.m.k. 25 daga til að svara og svarið er 30 orð, þannig að það er rúmlega eitt orð á dag sem ráðherrann hefur sett niður á blað, (Gripið fram í: … á meðan.) ótrúlega rýrt svar. En í þessari fyrirspurn spyr sú er hér stendur hvort ráðherra hafi vitað um þetta tilboð breska fjármálaeftirlitsins, að gegn 200 millj. punda fyrirgreiðslu, sem er um 40 milljarðar íslenskra króna, væri hægt að færa Icesave-reikningana yfir í breska lögsögu og svarið er nei.

Ég spyr einnig að því, virðulegi forseti, hvort fjármálaráðherra hafi verið að vísa í þessa upphæð, 200 millj. punda, í símtali við fjármálaráðherra Breta en það símtal lak reyndar út, af því að fjármálaráðherra Breta talar um ... [Háreysti á þingpöllum.]