136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:19]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á af því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi að þegar reglur Evrópusambandsins hafa verið teknar upp verður ekki unnt að snúa til baka eins og segir í greinargerð með frumvarpinu og kom fram í máli hæstv. ráðherra, þ.e. frá hinum sameiginlegu reglum til ákvæða í landslögum. Með öðrum orðum, þegar Evrópusambandsreglurnar hafa verið teknar upp, hvort sem við gerum það sem EES-ríki eða aðildarríki Evrópusambandsins, missa menn forræðið á því að breyta þeim. Það verður ekki snúið til baka. Það liggur alveg ljóst fyrir og það er ástæða til að vekja athygli á því.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, rökstyður hæstv. ráðherra þessa breytingu sem er sú að fresta því að opna vinnumarkaðinn hér á landi fyrir vinnuafli frá Rúmeníu og Búlgaríu með tilvísun til ástands heimilanna á Íslandi. Aðgerð til þess að verja stöðu heimilanna í ástandinu á Íslandi í dag er sem sé sú að opna ekki vinnumarkaðinn. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Til hvaða ráða hefði ráðherrann gripið ef við hefðum verið í dag í Evrópusambandinu og reglurnar gengið í gildi eins og þær munu gera?

Ég held að það sé ástæða til að fá fram (Forseti hringir.) úrræðin sem menn eiga þá á hendi til að beita síðar meir við sambærilegar aðstæður.