136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:25]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ósk mín og von og sjálfsagt síðasta ræðumanns líka að atvinnuástandið breytist fyrr hér en að við þurfum að búa við svona þrengingar í mörg ár í viðbót. Við vonum að það geti farið að birta til á íslenskum vinnumarkaði innan ekki margra missira.

Ég sagði áðan að við gætum framlengt þetta ákvæði, sem við erum nú að framlengja, til 2012–2014. Ef það er mjög slæmt ástand á vinnumarkaðnum eftir 2014 er hægt að framlengja ákvæðið í samningum við EES áfram. Við hljótum bæði að undirstrika að við hljótum að vinna okkur miklu fyrr út úr þessum hremmingum sem við erum í núna.