136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:26]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meginröksemdafærsla hæstv. félagsmálaráðherra fyrir frumvarpi því sem hér liggur fyrir er sú að draga þurfi svo mikið sem unnt er úr áhrifum efnahagskreppunnar á íslenskan atvinnumarkað en ég vil halda fram því sjónarmiði hér, hæstv. forseti, að þessi aðgerð í sjálfu sér hafi ekkert með þann tilgang að gera. Mér er nefnilega til efs að framlenging þeirra takmarkana sem hér er mælt fyrir um komi að miklu eða jafnvel nokkru marki til með að hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað.

Þeir einstaklingar sem leita sér að störfum innan Evrópska efnahagssvæðisins reyna að sækja til þeirra svæða þar sem atvinnuástand er sæmilegt. Nú háttar svo til hér að atvinnuástand er allt annað en sæmilegt. Það er verulega slæmt þannig að ég velti fyrir mér hvaða hætta sé yfirvofandi vegna þeirra 8 milljóna Búlgara og 22 milljóna Rúmena á vinnumarkaði sem telur um 500 milljónir manna og er opinn evrópskum vinnumarkaði. Mér finnst í sjálfu sér ekki sannfærandi að það sé einhver þörf á því að loka þessum markaði sem við erum nú þegar inni á fyrir aðilum frá þessum tveimur löndum.

Þegar þessum lögum var breytt í þeim tilgangi að nýta okkur aðlögunarfrestinn síðast, þ.e. lög sem tóku gildi 13. júní 2007, höfðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrirvara á því að við skyldum nýta okkur frestinn og rökstuddum hann með þeim hætti að við teldum að ekki hefði verið rökstutt í umræðunni með fullnægjandi hætti að ástæða væri til að beita þeirri aðlögun. Við sátum hins vegar hjá við málið af því að við ákváðum að leggja ekki neinn stein í götu þess ef stjórnvöld vildu fara þessa leið og lýstum ábyrgðinni á hendur stjórnvalda.

Í nefndaráliti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skilaði við þá umræðu kvartaði hann undan því að aðlögunartíminn frá 2004 hefði ekki verið notaður nægilega vel og að enn hefði skort á markvissa heildarstefnu stjórnvalda og miklu markvissari aðgerðir í málefnum innflytjenda sem koma hingað til lands til vinnu til lengri eða skemmri tíma. Hann krafði ríkisstjórnina um að taka sér tak, vinna heimavinnuna sína og rökstyðja þetta með þeim hætti að fullnægjandi væri.

Frestun á frjálsri för borgara frá Rúmeníu og Búlgaríu dregur að okkar mati ekki á nokkurn hátt úr þörfinni fyrir það að íslensk stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins beiti sér með beittari og markvissari hætti en gert hefur verið hingað til gegn því að erlent launafólk sæti félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Þau hafa verið til staðar. Ég sé ekki að á þeim tíma sem liðinn er frá því í júní 2007 hafi verið gert eitthvað meira en gert hafði verið á aðlögunarfrestinum. Ég kvarta enn undan því að íslensk stjórnvöld skuli hafa látið undir höfuð leggjast að fara í þá vinnu sem við töldum á 134. löggjafarþingi nauðsynlegt að fara í.

Meðan á þessum aðlögunarfresti stendur má gera ráð fyrir því að borgarar frá Rúmeníu og Búlgaríu komi hingað í hópi þess vinnuafls sem kemur hingað í gegnum starfsmannaleigur. Við höfum kvartað undan því vegna þeirra einstaklinga sem koma í gegnum starfsmannaleigurnar að þar sé hætta á verulega slakri stöðu gagnvart íslenskum kjarasamningum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði. Við teljum óviðunandi að fólk skuli þurfa að lúta því og teljum fulla ástæðu til þess að íslensk stjórnvöld taki af alvöru á þessum málum. Hins vegar er, eins og ég sagði í upphafi, hættan kannski ekki jafnmikið til staðar núna og þegar við ræddum þetta mál hér síðast vorið 2007.

Ég vil svo bara segja í lok míns máls, hæstv. forseti, að það kom fram í máli hæstv. ráðherra að gömlu ESB-löndin muni að öllum líkindum nýta sér frestina til 1. janúar 2012. En það kemur líka fram í máli hæstv. ráðherra að Finnland og Svíþjóð hafi ákveðið að gera það ekki. Ég hefði viljað fá að vita við umræðuna hvaða rök Finnland og Svíþjóð höfðu fyrir því að nýta sér ekki frestinn og hvort hæstv. ráðherra telji ekki að við gætum farið í spor Svía og Finna úr því að þau tvö lönd hafa ákveðið að nýta sér þá ekki. Benda þá ekki líkur til þess að önnur ríki slaki þarna á og fari að dæmi þessara tveggja þjóða? Hvers vegna getum við þá ekki gert það líka?

Eins og ég segi tel ég að hér hafi menn ekki nýtt sér þann tíma sem liðinn er frá því að við breyttum þessum lögum síðast og ákváðum að nýta okkur aðlögunarfrestinn og sé ekki að ástandið sé með þeim hætti núna að það skipti sköpum að loka íslenskum vinnumarkaði fyrir borgurum þeirra tveggja þjóða sem hér um ræðir.