136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[16:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994. Meginforsendur þessara breytinga eru þær að gera hlutverk tilraunadýranefndar skýrara jafnframt því að tryggja henni lagastoð til að standa undir þeim kostnaði er óhjákvæmilega hlýst af störfum nefndarinnar.

Verkefnum nefndarinnar hefur fjölgað og er því nauðsynlegt að gera breytingar á þeim ákvæðum laganna sem varða hlutverk og verkefni hennar til samræmis við framvindu þá sem orðið hefur á starfi hennar.

Í frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á hlutverki tilraunadýranefndar einkum varðandi afgreiðslu umsókna um leyfi til dýratilrauna, leyfi til þess að halda og annast tilraunadýr, svo og því hlutverki að sinna sértæku eftirliti með aðbúnaði og meðferð tilraunadýra. Einnig er lagt til að gjaldtökuheimild verði sett svo tilraunadýranefnd geti mætt þeim kostnaði er hlýst af vinnu við útgáfu leyfa og því sérstaka eftirliti sem nefndinni er ætlað að sinna.

Eðlilegt verður að teljast að þeir aðilar sem njóta þjónustu tilraunadýranefndar greiði kostnað nefndarinnar. Er mikilvægt að nefndin fái þessar tekjur til að tryggja rekstur hennar.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um kröfur um menntun og þjálfun þeirra er nota dýr í tilraunaskyni en mikilvægt þykir að meginatriðum um það sé skipað með lögum fremur en ákvæðum reglugerðar, eins og verið hefur.

Við gerð þessa frumvarps var haft samráð við tilraunadýranefnd sem er samþykk þeim breytingum sem hér er mælt fyrir um.

Ég legg til frú forseti að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar til umfjöllunar.