136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[16:40]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hefði alveg þegið að fá meiri fræðslu um þetta mál í ræðu hæstv. umhverfisráðherra. Ég verð að segja að mér kemur það nokkuð á óvart að sjá hversu mikið það virðist hafa aukist að hér séu notuð dýr í vísindatilraunir hvers konar. Ég hefði haldið að við hefðum þurft á því að halda að fá upplýsingar um hvers konar tilraunir þetta eru. En ég geri engu að síður ráð fyrir að slíkar upplýsingar komi til nefndarinnar þegar farið verður að vinna að málinu.

Annars vil ég lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum, hæstv. forseti, með að hér skuli komið fram frumvarp til laga sem breytir dýraverndarlögum, því hæstv. umhverfisráðherra hefur frá því að hún tók við embætti tilkynnt að von væri á heildarendurskoðun laga um dýravernd.

Ég hélt satt að segja þegar ég sá að verið var að útbýta fyrir helgina málum hæstv. ráðherra og rak augun í að það var verið að dreifa frumvarpi um dýravernd að hér væri heildarendurskoðunin komin. En svo er ekki. Það eru því mikil vonbrigði að hér skuli komið frumvarp sem lýtur einungis að þessum tiltekna þætti, þ.e. gjaldheimildum þessarar tilraunadýranefndar, þannig að við getum fengið í gegnum ríkissjóð fjármuni til að standa undir kostnaði þeirrar nefndar en allir aðrir þættir dýraverndarlaga, sem er gríðarlega mikilvægt að fara að breyta og koma skikki á, liggja enn inni í ráðuneyti.

Síðan vil ég spyrja, af því mér er alls ekki ljóst af því sem segir í umsögn fjármálaráðuneytisins, hvort sú leið sem hér er mælt fyrir um er fjármálaráðuneytinu að skapi eða ekki. Fjármálaráðuneytið segir í umsögn sinni að það telji það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þeim hætti sem hér er mælt fyrir um. Ég les það svo að sá háttur eða máti sem hér er mælt fyrir um í innheimtu ríkistekna sé fjármálaráðuneytinu ekki að skapi. Mér finnst það undarlegt að fá umsögn sem leiðir það í ljós að það sé mat ráðuneytisins að tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna, eigi að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna verði tekin af fjárlögum hverju sinni. Þannig skil ég þetta en ég bið hæstv. ráðherra að bregðast við og leiðrétta mig ef ég hef misskilið þetta í umsögn fjármálaráðuneytisins en það lítur út eins og fjármálaráðuneytið sé ekki sátt við það háttalag sem hér er mælt fyrir um.

Að öðru leyti verður málið auðvitað skoðað í umhverfisnefndinni og ég sé að hæstv. ráðherra leggur áherslu á að þetta verði afgreitt fyrir áramót til þess að hægt sé að fara að innheimta gjöld fyrir tilraunadýranefndina eins og hér er mælt fyrir um.