136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[16:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður umhverfisnefndar fagna framkomnu frumvarpi og, ólíkt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fagna ég því tækifæri sem það gefur hv. umhverfisnefnd til þess að fara yfir það sem að þessum málum kemur, umfangi, aðferðum og stöðu mála almennt. Ég held að full ástæða sé og tilefni til þess að gera það þótt vissulega geti menn haft skoðun á því að fleiri þættir í dýraverndarlögunum mættu vera undir til athugunar. En ráðherra hefur boðað að von sé á heildarendurskoðun laganna. Ég held að það sé ágætt að nefndin kynni sér einfaldlega vel þá þætti sem núna eru undir.

Ég held sömuleiðis að það sé eðlilegt af hálfu þingnefndar að hún leiti eftir því hjá fjárlaganefnd þingsins hvaða augum hún líti á innheimtu ríkistekna með þeim hætti sem hér er lagt til. Ef það eru einhver áhöld um það með hvaða hætti það sé heppilegast þá hljótum við að kalla eftir stefnu þeirrar þingnefndar sem lögin setur og stefnuna marka, eða eiga að gera það, að minnsta kosti hjá þeim sem hafa metnað fyrir störfum hv. Alþingis.

Ég vil í tilefni orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur taka undir að vissulega er brýnt að fyrirætlanir hæstv. ráðherra um það að koma með inn í þingið endurskoðuð dýraverndarlög, að þau gangi fram og við treystum því auðvitað að svo verði enda liggur fyrir að unnið er í málinu í ráðuneytinu nú þegar.