136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[16:48]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Það varpar nokkuð alvarlegu ljósi á samskipti fagráðuneyta og fjármálaráðuneytisins að fjármálaráðuneytið skuli lýsa yfir í frumvarpi frá fagráðuneyti um að það sé ósátt við þann framgangsmáta sem fagráðuneytið leggur til. Ég spyr hvort virkilega þurfi að hafa þennan háttinn á í stjórnsýslunni eða hvort fjármálaráðuneytið og fagráðuneytin geti ekki komið sér saman um með hvaða hætti tekjur verði innheimtar og hvaða framgangsmáti sé hafður í þeim efnum.

Ég sé ekki betur en hér sé búið að afhjúpa fremur kauðslegan núning á milli ráðuneytanna og hefði mælt með því að ríkisstjórnin kæmi sér saman um afgreiðslumáta og með hvaða hætti þessum málum er fyrir komið í ríkisstjórninni en afhjúpaði ekki svona ágreining í umsögn við frumvarp frá fagráðuneyti.