136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:17]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir innlegg hans í umræðuna um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Margt af því sem þingmaðurinn bendir á hefur verið til umfjöllunar í nefndinni. Það er ástæða til að ítreka að frumvarpið sem slíkt er unnið að frumkvæði sveitarfélaganna og að beiðni þeirra og mjög tímabært að málum sé þannig skipað að lög kveði skýrt á um rekstur fráveitna.

Ég vil bregðast við nokkrum atriðum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að fráveitur séu í meirihlutaeigu sveitarfélaga og það sé ekkert umsemjanlegt. Þannig á það að vera, almannaþjónustan á að vera í meirihlutaeigu sveitarfélags. Við vitum hins vegar að oft þarf að hafa sveigjanleika í rekstrarformum eins og mörg sveitarfélög hafa nýtt sér.

Til að svara spurningunni um svæðin þá er einmitt verið að hugsa um það út frá mismunandi þjónustustigi ef um stór svæði er að ræða sem hafa ekki öll sama þjónustustig. Ég er sammála hv. þingmanni um það að seint verður mikil samkeppni um persónueiningarnar, alla vega er það ekki fyrirsjáanlegt. (Gripið fram í.) Staðan í dreifbýli er auðvitað allt önnur en í þéttbýlinu og frá því að sveitarfélögin fóru í sitt stóra og mikla fráveituátak á tíunda áratugnum hafa ekki minna en 80% landsmanna, allur þorri landsmanna hefur þá fráveituþjónustu sem ég tel hann eiga fullan rétt á. Hins vegar eru dreifðar byggðir og lítil sveitarfélög sem hafa ekki mikla fjárhagslega burði og búa líka á þannig svæði að erfitt er að koma við fráveitu til sjávar sem eiga eftir að klára málið og það þarf kannski að finna aðeins öðruvísi lausnir á þeim svæðum.

Hvað kostnaðinn varðar þá hefur ríkið eins og menn vita endurgreitt virðisaukaskattinn. Vissulega eru þetta mjög miklar upphæðir, háar upphæðir sem sveitarfélögin hafa lagt í þetta, margir milljarðar króna eins og fram kom í máli hv. þingmanns. Ég vil taka fram af þessu tilefni að við lifum nú á miklum niðurskurðartímum, m.a. hefur verið mikil vinna í gangi á undanförnum dögum og vikum við frumvarp til fjárlaga 2009 og menn reyna að skera þar nokkuð niður. Ég hef staðið fast á því að til yrðu peningar í ríkissjóði samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs til að endurgreiða þær 200 millj. kr. sem lögum samkvæmt eiga að fara til að endurgreiða framkvæmdir á þessu ári, árinu 2008, sem er lögum samkvæmt síðasta árið eftir framlengingu sem sú endurgreiðsla fer fram. Hvort síðan eigi að grípa til annarra ráðstafana verður í raun að vera viðræða á milli ríkis og sveitarfélaga og það er náttúrlega eitt af þeim mörgu verkefnum sem þarf að ræða um útfærslu á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna um þetta frumvarp og vænti þess að það fái góða umfjöllun í umhverfisnefnd.