136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ótvírætt að fráveiturnar verði að vera í meirihlutaeigu sveitarfélaga eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Ég tel það mjög mikilvægt og ég sé í raun ekki í fljótu bragði hverjir aðrir mundu vilja kaupa sig inn í það fyrirtæki en þó er aldrei að vita, en meirihlutaeigan verður að vera sveitarfélagsins þannig að sú almannaþjónusta sé ótvírætt á hendi þess.

Hvað varðar endurgreiðsluna, sem er í raun annað mál, þá var eins og þingmenn vita fyrst ákveðið að framkvæma hana á árunum 1995–2005, í tíu ár, og það var síðan framlengt um þrjú ár. Þá var um það rætt í hv. umhverfisnefnd, sem ég átti sæti í þá, að þar með væri því lokið. En eigi að taka upp viðræður um að framlengja þetta eða halda því áfram með öðrum hætti þá er það eitthvað sem ég held að taka verði upp í formlegum viðræðum á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins, væntanlega fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis, ef það á að gerast og ef það er vilji manna almennt. Ég skal ekki útiloka það en ég minni á að þegar endurgreiðslan var framlengd um þrjú ár var það skilningur manna að þar með væri því ferli lokið.