136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:26]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það væri ráð að fara yfir það í hv. umhverfisnefnd hvaða sveitarfélög það eru nákvæmlega — þau eru nokkuð mörg en þau eru mjög fámenn — sem hafa ekki komið sér upp almennilegum fráveitum. Ég hygg að flest eða næstum öll sveitarfélög á landinu sem hafa kost á því að koma fráveitumálum sínum þannig fyrir, fjölmenn sveitarfélög, að geta haft fráveitu út í sjó séu búin að því eða vinni í því og það skýrir auðvitað að þorri landsmanna hefur þessa þjónustu nú þegar.

Ég er ekki frá því að að skoða þurfi sérstaklega aðstæður þeirra sveitarfélaga, bæði fjárhagslegar og landfræðilegar, sem eiga eftir að gera slíkt, hvort yfir höfuð er mögulegt að gera það með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert eða hvort finna þurfi einhverjar aðrar lausnir á því. Ég vil ekki útiloka neitt í því en ég vil heldur ekki lofa upp í ermina á mér að það þýði að þá verði áframhald á endurgreiðslunum, af því að það er eins og hv. þingmenn vita hluti af þeim samræðum sem þurfa að fara fram milli ríkis og sveitarfélaga um tekjuöflun, tekjustofna og annað slíkt og hvort setja eigi önnur lög um það.