136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[17:43]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir að loksins skuli komin fram ný náttúruverndaráætlun en lýsi því jafnframt yfir að ekki er seinna vænna því að samkvæmt starfsáætlun þingsins eru fjórir þingfundadagar eftir fram að jólahléi. Það er auðvitað ekki nokkurt lag að hæstv. umhverfisráðherra skyldi ekki hafa getað komið þessu máli fyrr inn í þingið því varla trúi ég að svo mikið álag hafi verið í umhverfisráðuneytinu vegna efnahagsmálanna að það hefði tafið vinnuna þar.

Ég hef ekki haft tækifæri til þess að kynna mér greinargerðina með þessu þingmáli nægilega vel til þess að geta haldið jafnefnismikla ræðu og ég gjarnan vildi. Ég vil þó fagna því sérstaklega að hér skuli farið fram með þeim hætti sem við getum lesið, að það séu svona fjölbreytilegar verndartegundir, getur maður sagt, plöntusvæði, dýrasvæði, vistgerðir og jarðfræðisvæði sem hér falla undir. Ég vil þó sérstaklega staldra við tvö svæði eða þrjú svæði reyndar sem gleður hjarta mitt að sjá á áætluninni. Það er í fyrsta lagi Gerpissvæðið sem við vinstri græn lögðum mjög mikla áherslu á að færi inn á síðustu náttúruverndaráætlun, í öðru lagi Langisjór og nágrenni hans sem verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og í þriðja og síðasta lagi stærra friðland í Þjórsárverum.

Þetta vil ég nefna sérstaklega en jafnframt vil ég segja að þetta eru orð og áform og ég bíð síðan eftir því að sjá efndirnar, því að það eru auðvitað gríðarleg vonbrigði hvernig til hefur tekist með náttúruverndaráætlunina sem hefur verið í gildi frá 2004, að á því tímabili skuli einungis hafa náðst að friðlýsa eitt af þeim 13 svæðum sem voru sett á þá náttúruverndaráætlun. Hvort þar er um að ræða sleifarlag innan ráðuneytisins, skort á vilja eða skort á undirbúningi, sem vel kann að vera, skal ég ekki dæma um en ég vona einlæglega að hér hafi undirbúningur verið með þeim hætti að ekki þurfi svipað að verða upp á teningnum þegar við horfum yfir farinn veg að fjórum árum liðnum. Og eins og starfshópurinn sem hefur undirbúið þessa áætlun kemst að orði í skýrslu sinni og getið er um í greinargerðinni þá skiptir það okkur verulegu máli að ekki verði gerð sömu mistök og gerð hafa verið á síðustu fjórum árum og að sú þekking sem menn hafa nú verði nýtt til þess að girt verði fyrir að við þurfum að standa hér að fjórum árum liðnum og jafnlítið hafi gerst.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. umhverfisráðherra skuli gefa yfirlýsingu og fyrirheit um að hún hyggist gefa þinginu skýrslu árlega um náttúruverndaráætlunina. Hingað til hefur það verið þannig að við almennir þingmenn höfum þurft að ganga eftir því við hæstv. ráðherra hvernig gangi með friðlýsinguna og lopinn hefur verið teygður og við höfum lítið fengið út úr þeim umræðum. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að hér skuli verða breyting á og treysti því að innihaldsrík umfjöllun verði árlega um það hvernig gangi. Það væri líka gott ef það kæmi fram við þessa umræðu í ræðum hæstv. ráðherra á eftir með hvaða hætti hún sér fyrir sér að við getum lokið náttúruverndaráætluninni 2004–2008.

Í greinargerð segir að áfram verði unnið að friðlýsingu þeirra svæða sem eru á fyrri náttúrverndaráætlun og ekki hefur verið hrundið í framkvæmd enn. Sömuleiðis segir að staða friðarlýsingarferla svæðanna sé mjög misjöfn en það verði reynt að friðlýsa sem flest á tímabilinu. Það er því ljóst að undir eru ekki bara þau svæði sem eru með í þessari áætlun heldur öll nema eitt svæði sem við vorum með á náttúruverndaráætluninni 2004–2008. Þá væri forvitnilegt að vita hvort sú kostnaðaráætlun sem hæstv. umhverfisráðherra gerði grein fyrir í máli sínu eigi að dekka báðar náttúruverndaráætlanirnar.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um samspil náttúruverndaráætlunar og rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða vil ég segja þetta: Sú uppfinning Samfylkingarinnar að tala um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða — sem er titill sem mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja en hæstv. umhverfisráðherra kýs að halda sig við — vil ég segja að það er ákveðin þversögn í þessu öllu saman. Í mínum huga hlýtur það að vera svo að náttúruverndaráætlun sem er fyrirskrifuð í lögum um náttúruvernd sé verndaráætlunin. Síðan höfum við aðra áætlun sem er áætlun um nýtingu, og ég minni á að áætlunin um nýtingu hét til skamms tíma, fram að valdatöku Samfylkingarinnar í umhverfisráðuneytinu, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. (Gripið fram í.) Ég hafði alltaf séð fyrir mér að ákveðið samspil væri á milli náttúruverndaráætlunar annars vegar og nýtingaráætlunarinnar hins vegar.

Ég vil bara að það sé alveg ljóst í umfjöllun umhverfisnefndar um þetta mál að náttúruverndaráætlunin sé Verndaráætlunin með stórum staf og að við horfum fram hjá því að nýtingaráætlunin hefur þennan undarlega titil, að hún eigi að fjalla um vernd náttúrusvæða. Ég hefði talið að hið heildstæða mat sem hæstv. umhverfisráðherra gat um að ætti að vera undir hatti rammaáætlunarinnar um verndargildi jarðvarmasvæða, að slík áætlun ætti vel heima undir þriðju áætluninni sem hæstv. ráðherra nefndi að ætti að fara að útbúa og ég fagna sérstaklega að skuli vera búið að taka ákvörðun um, þ.e. áætlun sem mundi styrkja vísindalegan grunn þeirra áætlana sem þarf að gera, nýtingaráætlunina annars vegar og verndaráætlunina hins vegar. Það er mjög mikilvægt að gerð verði áætlun um vísindarannsóknir og það er mjög gott til þess að vita að nú skuli það komið fram að það verði sjálfstæð áætlun um það á hvern hátt við ætlum að rannsaka þessi svæði okkar og efla rannsóknargrunninn og vísindagrunninn til þess að við getum tekið upplýstar og skynsamlegar ákvarðanir um nýtinguna. Það er ekki nóg, eins um við vitum, að setja eitthvert orðalag inn í lög um að náttúruauðlindirnar eigi að nýta með skynsamlegum hætti og setja svo ekkert fjármagn í rannsóknir. Þessu atriði vil ég því fagna sérstaklega hjá hæstv. umhverfisráðherra.

Að lokum, hæstv. forseti, langar mig til að koma að því sem sagt er í greinargerðinni um Þjórsárver og þykir mér það harla lítið. Ég hefði viljað sjá það með óyggjandi hætti í greinargerð með þessari náttúruverndaráætlun hvort þau landamerki sem hér eru dregin upp á afskaplega litlu korti sem erfitt er að rýna í, koma í veg fyrir byggingu Norðlingaölduveitu. Ég mundi því vilja að hæstv. ráðherra gæfi okkur yfirlýsingu um það hér úr ræðustóli hvort svo sé. Þetta segi ég að gefnu tilefni því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, eins og hæstv. ráðherra gat um, er getið um að það eigi að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að það nái yfir hið sérstæða votlendi veranna. Daginn eftir stjórnarmyndunina reis hins vegar ágreiningur um nákvæmlega þetta atriði þar sem formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, var spurð um það hvað þetta þýddi nákvæmlega, hvort þetta þýddi að það yrði komið í veg fyrir byggingu Norðlingaölduveitu og hún svaraði því játandi. Sama dag var hæstv. forsætisráðherra spurður um sama mál og hann svaraði spurningunni neitandi. Nú þætti mér gott ef hægt væri við þessa umræðu að kveða upp úr um það hvort þessi friðlýsingarmörk komi í veg fyrir byggingu Norðlingaölduveitu eða ekki.

Svo vil ég segja í annan stað um þetta svæði hér, það varðar Hofsjökul sjálfan: Nú höfum við haft mjög vel útfærðar tillögur í mörg, mörg ár um jöklaþjóðgarða á hálendi Íslands sem ættaðar eru frá fyrrverandi þingmanni, Hjörleifi Guttormssyni, þar sem hann gerði ráð fyrir að búa mætti til friðlýsingaráætlanir í kringum alla jöklana á hálendinu og tengja þá síðan saman í eina heild. Ég sé ekki betur en hér sé rakið tækifæri til að búa til Hofsjökulsþjóðgarð. Við erum búin að friða Guðlaugstungur sem eru í norðvesturhorni Hofsjökuls og ef það á að stækka friðun með þeim hætti sem hér er mælt fyrir um er farið upp á hálfan Hofsjökul og ég spyr: Hvers vegna er ekki farið alla leið? Hvers vegna er þá ekki a.m.k. jökulhetta Hofsjökuls friðuð? Það ætti að vera útlátalaust að vernda hana á sama hátt og jökulhetta Vatnajökuls hefur verið vernduð. Hvers vegna er ekki stigið alla leið þannig að við getum sagt að með þessari tillögu sé allur Hofsjökull verndaður? Þá gætum við sagt að á miðju landsins, hjarta Íslands, ættum við heilan jökul, Hofsjökul, sem væri verndaður að öllu leyti með í það minnsta hluta af kraganum sem í kringum hann er.