136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[17:54]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég er þeirrar skoðunar að það eigi með öllum ráðum, öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að af byggingu Norðlingaölduveitu verði. Ég rökstyð það m.a. í þingmálum sem ég hef flutt hér ár eftir ár um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum en Þjórsárverin eru náttúruverndarsvæði á heimsvísu, votlendi á heimsvísu sem samkvæmt alþjóðasamningum okkur ber í sjálfu sér að vernda.

Mér finnst það því útlátalaust af okkar hálfu að slá skjaldborg um friðlandið í Þjórsárverum og hið sérstaka votlendissvæði þeirra og vernda það fyrir frekari ágangi virkjunarsinna. Það er búið að nýta mjög stóran hluta af Þjórsá, nú þegar er búið að taka 40% af rennsli Þjórsár og nýta það til virkjana og málamiðlunin sem gerð var á sínum tíma þegar friðlandið í Þjórsárverum var búið til gekk út á að það yrði ekki skert að fullu, Þjórsá yrði ekki virkjuð að fullu.

Nú tel ég því vera í sjálfu sér tækifæri fyrir okkur og nauðsynlegt fyrir okkur að kveða upp úr um að sé hætt sé við frekari áform um virkjanir í Þjórsá, þ.e. að Norðlingaölduveita sé út af borðinu. Það breytir ekki því að nýtingaráætlun getur alveg staðið fyrir sínu því að Þjórsá er ekki eina vatnsfallið á Íslandi og ekki eini möguleikinn fyrir okkur til þess að virkja til raforkuframleiðslu.

Mín sýn í þessu er því algjörlega skýr, Þjórsárver lúta lögmálum sem mér finnst vera með þeim hætti að okkur sé ekkert að vanbúnaði að slá skjaldborg um friðlandið og stækka það þannig að það verði komist hjá frekari virkjunaruppbyggingu á því svæði.