136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[17:57]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað hárrétt hjá þingmanninum, við erum að upplifa skeið hlýnunar af mannavöldum sem reynt er að sporna gegn með öllum tiltækum ráðum. Ég veit að ég þarf ekki að hafa það hér yfir fyrir hv. þingmann að það eru aðgerðir í gangi sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist þó að við þurfum nú að bíða ótæpilega lengi eftir því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld ætla að framfylgja þeim skuldbindingum sem þau hafa í orði kveðnu sagst ætla að gera.

Auðvitað erum við að reyna að sporna við því að hér verði veruleg náttúruvá á ferðinni vegna hlýnunar. Hins vegar er annað mál að náttúran á auðvitað, a.m.k. að mati okkar náttúruverndarsinna, að fá að þróast eftir sínum eigin lögmálum. Okkur finnst alveg vera ástæða til þess að stór svæði á jafnósnortnu landi og þó er enn til á Íslandi verði vernduð til þess að þau fái að þróast eftir sínum eigin lögmálum, að náttúran fái með sínum aðferðum að móta landsvæðið. Við fáum þá sem Íslendingar að njóta þess að fara um landið og að upplifa krafta náttúrunnar á sem stærstum svæðum án þess að við eigum það á hættu að mannvirki eða mannanna verk trufli þá upplifun sem möguleg er fyrir okkur á hálendissvæðunum.

Ég tel því ekki að hlýnun af mannavöldum eigi að koma í veg fyrir eða hafa áhrif á að við leggjumst á eitt við að vernda stór svæði á miðhálendi Íslands.