136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:39]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki eins og sá Tómas sem dylst í brjósti hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Ég trúi. Ég kem aðallega til að fagna því að hv. þm. Jón Gunnarsson kemur hingað og lýsir mjög eindregnum stuðningi við þessa náttúruverndaráætlun. Ég tel að það sé mjög gott. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé mjög gott og það er alla vega spor í rétta átt að hv. þingmaður lýsir yfir stuðningi við þessa náttúruverndaráætlun sem er mjög merkileg og að ýmsu leyti tímamótaplagg. Ég hefði svo gjarnan hafa getað lagt hana sjálfur fram fyrir áratug eða svo þegar ég var umhverfisráðherra þannig að þetta er mér gleðiefni.

Hv. þm. Jóni Gunnarssyni virðist að einu leyti svolítið áfátt að því er skilning varðar á gildi náttúruverndaráætlunar fyrir atvinnuvegina. Ég lít svo á að það séu tvær hliðar á þessum peningi. Við erum með þessari áætlun að leggja til vernd bæði á búsvæðum, einstökum pörtum lífríkis, einstökum verum, af því að við teljum að það sé þess virði að vernda það um ókomin ár. Á hinn bóginn felst líka í þessu viðleitni til að ýta undir atvinnugreinar sem nýta þessi svæði með því að koma, skoða og njóta. Það á ekki að gera neitt annað. Ég verð að undirstrika það gagnvart hv. þingmanni, af því að hann hefur borið sérstaklega ákveðnar atvinnugreinar fyrir brjósti, að ferðaþjónustan sem byggir á því að njóta með þessum hætti náttúru og menningar í landinu er gríðarlega öflug lyftistöng fyrir atvinnulífið í landinu. Ég veit að hv. þingmaður er t.d. töluvert hrifinn af álframleiðslu en allt undir það síðasta þegar Fjarðarál fór í gang slagaði ferðaþjónustan um gjaldeyrissköpun hátt upp í alla stóriðju á Íslandi. Hún varð hálfdrættingur á við sjávarútveginn. Af hverju hefur hún eflst svona? Það er vegna þess að Ísland hefur upp á eitthvað að bjóða. Menn koma til Íslands til að sjá ósnortið land, (Forseti hringir.) ósnortið lífríki. Með þessari áætlun er þar með verið að leggja lóð á þá vogarskál.