136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

lyfjalög.

203. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt af hv. heilbrigðisnefnd.

Frumvarpið er einfalt í sniðum. Með því er lagt til að frestað verði að hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, sem eru lyfjalög sem voru samþykkt á vorþingi 2008, þ.e. breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Þetta varðar eingöngu þann þátt 10. gr. laganna er snýr að smásölu lyfja. Þeim hluta ákvæðisins var frestað á haustþingi í september sl. til 1. janúar 2009 en nú er gert ráð fyrir að þetta ákvæði taki gildi 1. apríl 2009, en með frestuninni sem gerð var í september var gert ráð fyrir að nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja kæmi til framkvæmda um áramót en þær breytingar hafa nú frestast. Það er mjög mikilvægt að afslættir af lyfjum í smásölu haldist í hendur við nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og af þeim sökum er lagt til að ákvæðið taki ekki gildi fyrr en 1. apríl 2009. Á þeim tíma er talið, þ.e. fram til 1. apríl 2009, að möguleiki sé á að þróa og ljúka gerð hins nýja greiðsluþátttökukerfis.

Eins og ég sagði fyrr varðar þetta eingöngu frestun á banni við afsláttum í smásölu en annað ákvæði 10. gr. varðandi bann við afsláttum í heildsölu hefur þegar tekið gildi, sem þýðir að heildsalar bjóða í dag öllum smásölum sama verð sem hefur m.a. átt þátt í því að lækka lyfjaverð í landinu.

Þar sem frumvarpið er flutt af heilbrigðisnefnd tel ég rétt að það fari ekki til nefndar heldur beint til 2. umr. hér á hinu háa Alþingi.