136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

lyfjalög.

203. mál
[19:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að þetta frumvarp er hér flutt af hv. heilbrigðisnefnd í heild. Þau ákvæði sem hv. formaður heilbrigðisnefndar rakti í 10. gr. laga um breytingu á lyfjalögum átti upphaflega að taka gildi 1. október sl. Við fulltrúar Vinstri grænna í nefndinni vöruðum eindregið við þessu ákvæði 10. gr., um bann við afsláttum í smásölu, m.a. þeim afsláttum sem hagsmunasamtök á borð við Hjartavernd höfðu náð fram og hafa náð fram fyrir félagsmenn sína. Við greiddum þess vegna á sínum tíma atkvæði gegn ákvæðinu og af sjálfu leiðir að við studdum frestun á gildistöku til áramóta og að við fögnum og flytjum nú með öðrum nefndarmönnum hv. heilbrigðisnefndar tillögu um að fresta þessu enn frekar, þ.e. til 1. apríl 2009, og erum tilbúin til þess að fresta þessu enn lengur eða fella þetta alveg úr gildi ef þörf krefur.