136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ummæli seðlabankastjóra um stöðu viðskiptabankanna.

[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það hefur legið fyrir að Seðlabankinn hafði áhyggjur af hver þróun mála væri varðandi viðskiptabankana. Mig rekur ekki minni til þess að haldinn hafi verið sérstakur fundur um þau mál og hef ekki séð það í mínum gögnum í júnímánuði sl. og kannast ekki við að sagt hafi verið við mig í samtali að 0% líkur væru á að bankarnir lifðu af.

Ég kannast hins vegar við mörg símtöl og samtöl við formann bankastjórnar Seðlabankans um þessi mál þar sem við höfum rætt þessi atriði, bæði formlega og óformlega. Auðvitað hafði hann, eins og við öll sem að þessum málum komum, þungar áhyggjur af því hvað gæti hugsanlega gerst í þessum málum þó að ekkert okkar hafi átt von á því að svo illa færi sem fór.