136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ummæli seðlabankastjóra um stöðu viðskiptabankanna.

[13:46]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Miðað við þau opinberu gögn sem liggja fyrir frá Seðlabankanum frá þessum tíma, frá því í maí og júní, liggur fyrir að því er haldið fram að eiginfjárhlutföll bankanna séu viðunandi og lausafjárstaða bankanna hafi verið góð en á hana reynir í ár — þetta segir í maí 2008. Gefin var út skýrsla sem heitir Fjármálastöðugleiki þar sem ítarlega er fjallað um þetta. Þar segir m.a. að góðar langtímahorfur séu í íslensku efnahagslífi og staða bankanna sé viðunandi. Ekkert bendir til þess að það sé sannleikanum samkvæmt það sem seðlabankastjóri segir að hann hafi fullyrt við íslenska ráðamenn á þessum tíma.

Það sama kemur fram í skýrslu, Peningamálum, frá Seðlabankanum í júlí 2008. Miðað við það sem hæstv. forsætisráðherra upplýsir hér, að seðlabankastjóri hafi ekki gert sér grein fyrir þeim áhyggjum sem hann sagði á fundi viðskiptanefndar að hann hefði gert — fyrst seðlabankastjóri vissi hvað um var að ræða og taldi þetta bankahrun yfirvofandi en (Forseti hringir.) gerði ráðamönnum ekki grein fyrir því liggur beinast við að honum beri að segja af sér.