136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

rannsóknargögn um fall bankanna.

[13:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrri hlutinn af ræðu hæstv. forsætisráðherra hljómaði vel en seinni hlutinn hörmulega illa. Ég held að það gangi gegn öllum skynsamlegum sjónarmiðum að reyna að halda því fram að auðveldara verði að sækja gögn sem búið er að selja og eru komin inn í rekstur, í hendur nýrra aðila, og varin af bankaleynd. Hér eiga rannsóknarhagsmunirnir að ganga fyrir og ef þess þarf á að setja fyrirtækin í lögformleg skipti þannig að bankaleyndinni sé þar með aflétt.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra hér á Alþingi Íslendinga að láta það ekki gerast að gögn glatist við þessar aðstæður. Núna er tíminn til þess að gera eitthvað í málinu þannig að skattrannsóknarstjóri verði kominn með heimild til að fá þessi gögn fyrir helgina og salan verði sett á ís þar til búið er að ganga frá því að öll gögn verði eftir sem áður aðgengileg. Við vitum hvernig um bankaleyndina er búið í Lúxemborg. Hún er einhver sú sterkasta í allri Evrópu, kannski að Sviss frátöldu, þannig að ég hef ærna (Forseti hringir.) ástæðu til að ætla að hafa þurfi hraðar hendur.