136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

launamál í ríkisstofnunum.

[13:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur haft frumkvæði að því að kalla eftir lækkun launa æðstu embættismanna ríkisins, þeirra sem falla undir kjararáð, og ég þykist vita að svipaðar fyrirætlanir séu um stofnanir og fyrirtæki ríkissjóðs.

Laun æðstu yfirstjórna í stofnunum og fyrirtækjum ríkissjóðs eru hins vegar umhugsunarefni. Við höfum mörg vaxandi efasemdir um það sem við höfum látið þróast hér á undanförnum árum, þar sem einstakir forstjórar eru komnir með hærri laun en æðstu ráðamenn ríkisins. Þannig er seðlabankastjóri með 1,8 millj. kr. á mánuði á meðan forsætisráðherra er með 1,1. Forstöðumenn stofnana eru með hærri laun en fagráðherrarnir og forstjórar ríkisfyrirtækjanna eru með hærri laun en fjármálaráðherrann sem skipar þeim í stjórnir.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé því ekki sammála að til lengri tíma litið sé eðlilegast að heildarskipulag launakerfis ríkisins og samstæðunnar sé þannig að hæstv. forsætisráðherra sé hæstlaunaði forstöðumaðurinn hjá ríkinu.

Ég spyr líka — þar sem nú er um heim allan verið að endurskoða himinhá laun og ofurlaun, og verður auðvitað hjá fyrirtækjum ríkisins eins og öðrum — hvort það sé komið undir hverri og einni stjórn og hverju og einu ráði að gera það eða hvort fjármálaráðuneytið muni hafa einhverja forgöngu um það, hvort það setji leiðbeiningar til leiðsagnar fyrir stjórnirnar við slíkar launaákvarðanir.

Það er auðvelt að hrópa um lækkun hæstu launa, það getur hver maður gert. En allir sem hafa farið með framkvæmdarvald vita að auðveldara er um að tala en í að komast. Ég vil því líka biðja hæstv. fjármálaráðherra, vegna umræðunnar í samfélaginu, að reifa þau vandkvæði og þau ljón sem kunna að vera á veginum á slíkri endurskoðun.