136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

Sjúkratryggingastofnun.

[14:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Menn fullyrða að hér sé í raun á ferð mjög harkaleg deila milli stjórnarflokkanna tveggja og milli hæstv. félagsmálaráðherra annars vegar og hæstv. heilbrigðisráðherra hins vegar, og að þessi deila sé nú þegar komin inn á borð hjá forsætisráðherra og starfsmönnum Tryggingastofnunar hafi verið tilkynnt um það á föstudaginn var að svo væri. Mér þykir miður ef þessar upplýsingar um að hæstv. forsætisráðherra sé tekinn við málinu eru ekki réttar en ég fagna jafnframt þeirri yfirlýsingu að hann muni athuga málið. Ég vil vekja athygli á því að Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, sem hefur fengið það verkefni að gæta hagsmuna starfsmanna Tryggingastofnunar í þessum málum, hefur í bréfi til starfsmanna fullyrt — og bréfið er dagsett í gær — að það samrýmist ekki lögum að knýja starfsmenn til að sækja um störf með þessum hætti.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að stöðva þennan yfirgang í þessari nýju stofnun.