136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:14]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að taka upp málefni Ríkisútvarpsins. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Það er grafalvarleg staða þar eins og hér hefur verið lýst. Eins og kemur fram hjá hæstv. menntamálaráðherra á þetta ekki bara við um Ríkisútvarpið, heldur almennt um fjölmiðla hér á landi. Er það auðvitað ekkert sérkennilegt miðað við þá stöðu sem ríkir í efnahagsmálum að það bitni á fjölmiðlum. Það er hins vegar meginhlutverk okkar við þessar aðstæður að tryggja að Ríkisútvarpið standi við það hlutverk að sinna almannaþjónustu eins og til er ætlast í þeim þjónustusamningi sem gerður var við stofnunina.

Það er hins vegar eðlilegt að yfirstjórn Ríkisútvarpsins bregðist við þegar í ljós kemur að hallinn er um 750 millj. kr. Við getum auðvitað deilt um hvort nákvæmlega rétt hafi verið að verki staðið. Mér finnst eðlilegt að taka undir það hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að svo virðist sem ákveðið upplýsingastreymi hafi ekki verið eins og best verður á kosið. Það er eðlilegt að starfsfólk og raunar þjóðin öll fái að vita hvernig á að standa að slíku verki. Ég vek hins vegar athygli á því að miðað við upplýsingar mínar hefur sem betur fer verið einhugur um það í stjórn Ríkisútvarpsins að fara þær leiðir sem farnar hafa verið og rétt að vekja athygli á því að ekki bara stjórnarflokkarnir eiga fulltrúa í þeirri stjórn.

Það er líka fagnaðarefni að þrátt fyrir að menn hafi hafið þennan leiðangur hafi þeir áttað sig á ýmsu sem betur mátti fara í upphaflegu tillögunum. Þar vil ég sérstaklega nefna að hætt var við að hætta við svæðisútsendingar sem eru auðvitað afar mikilvægt þegar í ljós kom að ekki aðeins var verið að spara útgjöld, heldur tóku menn líka ákveðnar tekjur af stofnuninni. Þegar málið var skoðað betur kom í ljós að rétt var að halda áfram svæðisútsendingum.

Þetta tel ég til marks um það að fólk við stjórnvölinn í Ríkisútvarpinu áttar sig á að það gerir mistök eins og aðrir og hefur lært af þeim.